17.02.1920
Efri deild: 5. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

24. mál, varnir gegn spönsku innflúensusýkinni

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg vildi leyfa mjer að gera örlitla athugasemd út af því, sem sagt hefir verið um ferð Lagarfoss. Allur er kosturinn illur — bæði að fá sýkina og teppa skipið. Mjer er það kunnugt, að á Ísafirði er matvælaskortur sem stendur, einkum á hveiti, og átti að bæta úr því nú með Lagarfossi. Sömuleiðis er þar kolaskortur, svo að loka hefir t. d. orðið barnaskólanum.

Lagarfoss þarf því nauðsynlega að komast til Ísafjarðar. Og jeg held, að engin hætta ætti að þurfa að stafa af afgreiðslu hans þar, ef gætt er nú sömu varúðar og í fyrra. Vörunum má skipa upp á sama hátt og þá, og fólkið má sóttkvía eins og þörf þykir.

Ísfirðingar eru auðvitað mjög þakklátir fyrir allar ráðstafanir til varúðar, og munu sjálfir gera þær eftir megni og framfylgja þeim trúlega. En þeim er líka lífsnauðsyn að láta nú ekki teppa að óþörfu samgöngur sínar, og nú eins og áður ættu þeir að geta sameinað þetta hvorttveggja — ef rjett er að farið — að verjast hættunni, ef hún er nokkur, og fá þó nauðsynjar sínar, með því sama fyrirkomulagi á afgreiðslu skipa og áður var fylgt þar.