17.02.1920
Efri deild: 5. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

24. mál, varnir gegn spönsku innflúensusýkinni

Flm. (Gísli Sveinsson):

Jeg er háttv. stjórn þakklátur fyrir það, hvernig hún hefir tekið í málið. Jeg er ekki fær um að gangrýna reglurnar, eins og þeir, er læknaritið hafa. En þeir mega ekki nota það til að draga úr varfærni manna. Það getur verið, að reglurnar sjeu ekki alveg öruggar eins og þær eru, en ef svo er, þá á að ganga svo frá þeim, að þær verði það, og gera þær sem öruggastar.

En það má deila um, hvort þær eru ekki algerlega öruggar, og hvort ekki mætti takast að verja landið, ef þeim væri fylgt nógu röggsamlega. Einstaklingar verða að fylgja þeim samviskusamlega. Og verði læknar eða lögreglustjórar varir við veilur í þeim, þá eiga þeir að gera við þeim, ef unt er.

Hv. 6. landsk. þm. (G. B.), sem hjer ætti að eiga mestan hlut að máli og í þetta sinn sleppur við ásakanir, þar sem jeg endurtek ekki það, er jeg sagði í fyrra; ætti heldur að hvetja menn til að framfylgja reglunum en hitt. Læknarnir ættu að efla trú manna á sóttvörnunum. Því að ef almenningur er vantrúaður á þær, þá má ganga að því vísu, að alt lendi í handaskolum. En aftur á móti ef hann trúir, að takast megi að verja landið, þá tekst það.

Jeg skal ekkert segja um, hve langur sóttkvíunartíminn skuli vera; það getur verið álitamál. Eftir að reglurnar komu út í fyrra, þá fylgdi jeg þeim ekki bókstaflega, heldur miklu strangar, og var, eins og nú er kunnugt orðið, farinn áður að fylgja ströngum reglum. Jeg ljet hafa menn lengur í sóttkví en þær sögðu fyrir og ljet fara alt öðruvísi með dauða muni. Þetta verður aldrei áfelst, því að framkvæmdirnar eiga altaf að vera frekar strangari en sagt er í reglunum heldur en hitt, í svona málum. Að vísu er læknastjettin mannfá, en þarf þó ekki að tvöfalda hana. Á þeim stöðum, sem verst eru settir, t d. eins og Vestmannaeyjum, þyrfti tvo lækna, sem annar væri sóttvarnarlæknir. Um ýmsa aðra staði getur verið að ræða, t. d. á Austfjörðum.

Hv. 6. landsk. þm. (G. B.) taldi veikina að líkindum hafa komið með veikum manni. En er ekki hægt að flytja veikan mann svo örugt sje? Jeg treysti mjer til þess að gefa reglur um það, og vafalaust ýmsir aðrir.

Hv. 1. þm. Árn. (E. E.) sagði, að hart yrði í búi hjá mörgum austanfjalls, ef samgöngubanninu við Vestmannaeyjar yrði haldið áfram. (E. E.: Ef svo illa tækist til, að sóttin bærist þangað). Það eru engin vandkvæði á því að halda uppi flutningum til og frá veikum hjeruðum. Það er hægt að ganga örugglega frá þeim. Á landi ljet jeg flytja í fyrra vörurnar til ákveðins staðar og skilja þær þar eftir; voru þær síðan, eftir hæfilega langan tíma, hirtar þar af öðrum. Á sjó fór flutningur milli skips og fjöru í tunnum á streng. Þannig var ekkert samneyti, persónulegt, haft við hin sýktu hjeruð. Jafnvel póstinn ljet jeg sótthreinsa, þótt sumir kalli víst hótfyndni. Allar reglur voru svo strangar, sem fullörugt þótti. Annars hygg jeg það orðum aukið, að til hallæris horfi þar austanfjalls. Sami hv. þm. (E. E.) taldi möguleika á því, að hjeraðið væri þegar sýkt, en jeg held ekki að svo sje, því jeg hefi heyrt, að það ætti að stöðva bátinn í Eyjunum, sem þangað fór frá Eyrarbakka.

Hv. þm. (E. E.) mintist í þessu sambandi á, að Árnesingar hefðu orðið út undan og ekki notið eins ferða bátsins Skaftfellings og þeir að rjettu hefðu átt. Mjer er vel kunnugt um, að Skaftfellingur hefir altaf komið við á höfnum þeirra, hafi þess verið óskað. Þegar enginn flutningur hefir verið tilkyntur, hafa verið gerðar fyrirspurnir, og allajafnan verið svarað neitandi.

Hv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.) spurði, hvað gera ætti við skipbrotsmenn og annað, er að landi ræki. Jeg get bent á, að í Skaftafellssýslu er einna hættast við, að eitthvað reki á land, og þess vegna gaf jeg út í fyrra nákvæmar reglur til hreppstjóra um, hvernig þeir ættu að haga sjer, ef slíkt bæri að höndum, við strönd og þess háttar. Þessar reglur voru svo ítarlegar, að jeg ætla ekki að fara að telja þær hjer upp, það yrði of langt mál. Enda finst mjer það ekki fær lögreglustjóri, sem ekki getur sett reglur um slíkar framkvæmdir í einstökum atriðum, án þess að fara í landsstjórnina, sem að eins getur gefið aðalreglur. Það er áreiðanlegt, að sje reglunum vel framfylgt, er sýkingarhættan mjög lítil. Jeg segi þetta í samræmi við álit lækna, og reynslan ber því vitni. Jeg tel ekki þörf á, að síðari umr. fari fram þegar í dag, þar sem hún er að eins form, til þess að gefa stjórninni frjálsar hendur hvað snertir fjárgreiðslur og annað, er að framkvæmdum lýtur. Það gerir ekkert til, þó hún dragist eitthvað. Stjórnin veit nú, hvað þingið vill.