17.02.1920
Efri deild: 5. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

24. mál, varnir gegn spönsku innflúensusýkinni

Magnús Kristjánsson:

Jeg tel mjer skylt að mótmæla þeirri till. hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að Lagarfoss verði settur í sóttkví á Ísafirði. Þessi till. hans er sprottin af ástæðulausum ótta, sem gæti haft mikið ilt í för með sjer, ef hann næði að útbreiðast frekar en orðið er. Þessu áliti mínu til stuðnings skal jeg geta þess, að kolabirgðir skipsins eru svo litlar, að það má ekki verða fyrir neinum töfum, ef ferðin á að verða að tilætluðum notum. Afleiðingin af slíkum töfum gæti orðið sú, að skipið kæmist alls ekki fyrir Horn og til Norðurlands, en þangað verður það að komast. Jeg held því fast fram, að svo mikil varfærni getur orðið hættuleg og til ómetanlegs tjóns, ef illa tekst til.