28.02.1920
Sameinað þing: 6. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

58. mál, endurskoðun kosningalaganna og kjördæmaskipun

Hákon Kristófersson:

Án þess að jeg vilji gera lítið úr þessari till leyfi jeg mjer að segja það, að jeg tel hennar litla þörf. Háttv. 1. þm. Árn. (E. E.) mintist á, að mikil óánægja væri víðs vegar um landið vegna kjördæmaskipunar. Eftir því, sem mjer skilst, er það þó ekki nema í Árnessýslu. Jeg verð að líta svo á, að þingmálafundir hefðu átt að hafa málið til meðferðar og taka afstöðu til þess, áður en það var flutt hjer inn á þingið. Jeg veit ekki til, að kvartanir í þessa átt hafi borist utan af landi, en hitt er víst, að menn víðs vegar um land bjuggust við því, að Reykjavík gerði kröfu til fleiri þm Nú hefir hún fengið 2 í viðbót, og tel jeg með því fullnægt þeirri fylstu sanngirniskröfu, er hún gæti átt í þessu tilfelli. En meðan ekki hafa komið óskir um breytingar á kjördæmaskipun úti um land, finst mjer engin þörf á að vera að berja það fram nú á þessu þingi.