28.02.1920
Efri deild: 17. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í C-deild Alþingistíðinda. (865)

48. mál, laun embættismanna

Sigurður Eggerz:

Jeg er í engum vafa um, að skilningur stjórnarinnar á lögunum er rjettur. Samkvæmt launalögunum hafa verið búnar til ýmsar nýjar stöður innan póstmálanna, eins og póstfulltrúi hjer í Reykjavík og póstmeistari í sumum kaupstöðum utan Reykjavíkur o. s. frv., en aftur hefir gömlu stöðunum, eins og t. d. póstafgreiðslumaður, verið haldið, en nú eru byrjunarlaun t. d. póstfulltrúa hin sömu og lokalaun eða hámarkslaun póstafgreiðslumanna. Því er það, að póstafgreiðslumaður í elsta flokki, sem verður póstfulltrúi, fær í byrjun ekki hærri laun en hann hafði, og þar sem um nýja stöðu er að ræða, þá heimila lögin ekki annað.

Jeg er með því, að frv. nái fram að ganga, af því kröfur póstmanna eru bygðar á sanngirni, en hins vegar held jeg því fast fram, að skýringar stjórnarinnar á lögunum sjeu rjettar.