24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (883)

41. mál, Íslensk peningaslátta

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg ætla, að svo hafi verið undanfarin ár, að ekki hafi verið mikið sjálfstæði þessa lands. En nú tókst svo til við samningsgerðina við Dani, að landið fjekk heimild til að taka peningasláttuna í sínar hendur, sem sjálfstætt ríki. En nú eru margir svo gerðir, að þeir hafa ekki gaman af að vita af því á pappírnum, heldur í framkvæmdinni. Jeg hygg, að þetta sje einn af þeim sjálfsögðu hlutum, eins og t. d. hæstirjettur, svo að allir skilji, að það er ekki einungis að ræða um orðalag á pappírnum, heldur um framkvæmd. Mjer sýnist það ekki meira en hæfilegur metnaður, þó menn vilji ekki vera á annara vegum meira en við erum skuldbundnir til samkvæmt samningum. Jeg held, að peningaslátta, sem ríkið hefði á hendi, yrði ekki til stórgróða í vanalegu ári, ekki heldur tap að henni. Mjer virðist því full nauðsyn á því, að Alþingi veiti stjórninni þegar í stað heimild til framkvæmda, svo stjórnin verði ekki í vandræðum sökum heimildarskorts, ef til þess kemur. Þetta þing er að flýta sjer, en þó hygg jeg, að geyma mætti mörg mál, sem nú eru rædd, til næsta þings, en mörg mál þola enga bið, og er þetta eitt af þeim, því að ef gengismunur danskrar krónu og peninga annara ríkja verður svo mikill, að stórtjón sje að nota danska mynt, sýnist mjer sjálfsagt að reyna þetta og sjá, hvort íslenska krónan verður ekki hærri. Má telja víst, að svo verði, þar sem útflutningur er meiri en innflutningur. Má vera, að innflutningur sje eins mikill nú og útflutningur, en þó er jeg í vafa um, að það sje. En hitt er víst, að framvegis verður. eins og verið hefir, að Íslendingar flytja meira út en að sjer. Það liggur í eðli landsins og atvinnuvegum, og engin ástæða til að halda, að svo verði ekki framvegis, eftir því sem þjóðinni vex fiskur um hrygg. Ef dönsk króna heldur áfram að lækka, er sjálfsagt fyrir stjórnina að framkvæma þetta hið bráðasta, en þá má hana ekki vanta heimildina til þess. Margir kynnu að vitja berja því við, að ekki væri fljótlegt að koma slíku í framkvæmd, en þá vil jeg benda þeim á einn veg. Þá er ekki annað en að fá eitthvert annað ríki til að lána sín verkfæri í bili til að móta peninga fyrir Ísland ef um svo krappan sjó væri að sigla; það þyrfti ekki að bíða eftir því, að það væri gert með landsins eigin verkfærum. Að sjálfsögðu yrði það hlutverk stjórnarinnar að sjá um, hvaða vegir væru bestir til framkvæmda, og jeg er sannfærður um, að hver stjórn sem yrði í landinu myndi gera alt, sem í hennar valdi stæði, til þess, að alt færi sem best, ef hún hefði heimildina. Og með þessu er líka trygging fyrir því, að á komandi tímum þurfi Íslendingar ekki að bíða skaða af gengismun danskrar myntar og myntar annara landa. Því að samkvæmt atvinnuvegum og verslun þessa lands er ástæða til að ætla, að íslenskir peningar hafi ætíð hátt gengi. Sjálfsagt þarf ekki að minna stjórnina á, að samkvæmt samningagerðinni við Dani þarf hún að semja við Norðmenn og Svía um mynt. Er það sjálfsagður hlutur.

Jeg vona, að deildin lofi þessu máli að ganga áfram til samþ. á þessu þingi. Vel getur verið, að eitt eða annað vanti í hjá mjer, og háttv. þm. sæju það betur, og gætu þeir þá komið með brtt. við 2. umr. Annars er mjer það ekkert kappsmál, að það fari ekki í nefnd; ekkert á móti, að því verði vísað til hv. fjárhagsnefndar. En þar sem stutt er eftir af þingi, vænti jeg, að því verði flýtt. Svo ætla jeg ekki að tefja frekara.