27.02.1920
Efri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (897)

41. mál, Íslensk peningaslátta

Sigurður Eggerz:

Jeg hefi ekki heyrt umr. í hv. Nd. um málið. En jeg þykist vita, að ástæðan fyrir því sje sú, að mönnum hafi vaxið í augum hinn mikli gengismunur peninga vorra og annara þjóða. En það væri að sjálfsögðu stórhagur fyrir landið, ef hægt væri að ráða bót á þessu.

Það er nú ef til vill örðugt að segja um það, hvað veldur gengismun peninga. En flestir eru þó á þeirri skoðun, að gengið miðist við hlutfallið milli útfluttrar og innfluttrar vöru. Það er nú ekki gott að segja um þetta hlutfall sem stendur, vegna þess hve verslunarskýrslur vorar ná skamt. En eftir því, sem jeg hefi getað komist næst, námu útfluttar vörur 30 miljónum kr. og innfluttar vörur 40 milj. kr. árið 1917, en árið 1918 útfluttar vörur 40 milj. kr., en innfluttar 30 milj. kr., svo að þetta vegur salt bæði árin. En eftir þessu er þá gengismunur óeðli legur.

En þótt þetta frv. verði samþ., þá þarf málið sjálfsagt undirbúning, meðal annars samninga við stjórnir annara Norðurlanda, sbr. sambandslögin. Og þótt jeg sje ekki stuðningsmaður núverandi stjórnar, þá efast jeg ekki um það, að stjórnin muni gera sitt besta í þessu máli.