28.02.1920
Neðri deild: 18. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í C-deild Alþingistíðinda. (915)

57. mál, peningamálanefnd

Flm. (Jón A. Jónsson):

Það er fyrir tilmæli hæstv. stjórnar og fjárhagsnefnda beggja deilda, að jeg og hv. 1. þm. Árn. (E. E.) tókum að okkur að flytja þetta mál.

Framsaga mín mun verða nokkuð takmörkuð, því tími hefir ekki verið nægur til athugunar, sem vert væri um slíkt mál.

En hv. deild veit, að hjer er um mál að ræða, sem í náinni framtíð hefir geysimikla þýðingu fyrir fjárskifti Íslands við erlend ríki.

Ástæðan til, að þessarar gæslu þarf við, er sú, að við flytjum meira inn af vörum en við flytjum út.

Í Danmörku er þegar komið slíkt fjárhagsráð, sem hjer er farið fram á, og jeg hygg, að það sje fylsta nauðsyn, að við setjum slíkt ráð á stofn hjer.

Svo er þessu háttað í Danmörku, að bankar þar mega hvorki nje vilja flytja fje úr landi með yfirfærslu í aðra banka, nema með leyfi „Valuta“-ráðsins. Ástæðan til þess, að ráð þetta var sett á stofn í Danmörku, var sú, að Danir höfðu flutt svo miklu meira inn en út, að þeir höfðu stórskemt lánstraust sitt meðal erlendra ríkja. Með nefnd þeirri, sem hjer er farið fram á að verði sett á stofn, er um það að ræða, að gefa landsstjórninni íhlutunarrjett um peningaviðskifti Íslands við erlend ríki.

Það er nauðsynlegt fyrir þjóðarhaginn að rannsaka, hver viðskifti landsmenn hafa við aðrar þjóðir, og geta stemt stigu fyrir þeim, ef þau ganga í óheillavænlega átt, og vil jeg þá sjerstaklega nefna ýmsa óþarfavöru, sem nú reyndar hafa verið sett lög um, og svo einnig það, er of mikið er flutt inn í landið í einu af einhverri nauðsynjavöru.

Um þetta hefir komið fram sú skoðun, að bankarnir gætu miklu ráðið og haft gott eftirlit með þessu. En þetta er mesti misskilningur.

Slík nefnd mundi hafa nákvæmar skýrslur og yfirlit yfir innflutninginn, og þá um leið landshaginn, og geta því ætíð haft gott heildaryfirlit; þetta eiga bankarnir ekki svo hægt með, enda liggur þetta svo að segja algerlega fyrir utan verksvið þeirra.

Í Danmörku er það þannig, að menn geta eigi, þótt þeir eigi stórfje inni í bönkunum, fengið það yfirfært t. d. í banka í Englandi. Jeg get nú hugsað mjer, að hv. deild telji rjett manna til athafnafrelsis nokkuð skertan með þessu, en á þessum tímum mega menn vara sig að halda of fast við „principin.“

Það er auðvitað hart aðgöngu að mega ekki kaupa hvað sem er frá útlöndum fyrir sitt eigið fje, en hagur landsins allur heimtar, að það sje höfð hönd í bagga með, á slíkum tímum, sem við nú lifum á. Með þessu ætti þá í fyrsta lagi að vinnast það, að ekki þyrfti að neita um peninga til kaupa á nauðsynjavöru, en aftur á móti getur slíkt vel komið til mála með óþarfavöru.

Clausen, bankastjóri í Danmörku, kveður nauðsynlegar slíkar strangar reglur, og segir hann í umsögn um „Valuta“-ráðið danska, að reglurnar nái eigi einungis til banka, hvað viðvíkur yfirfærslu til útlanda, heldur megi „privat“-menn, sem eigi fje í útlöndum, ekki láta það af hendi fyrir vörur, nema með leyfi þessa „Valuta“-ráðs.

Bankarnir hjerna hafa líka sjeð hættuna og stungið upp á líkri skipun hjer og er í Danmörku.

Jeg er viss um, að náist góð nefndarskipun, þá yrði það fyrsta lyftistöngin undir það, að gengi peninga vorra hækkaði eitthvað frá því, sem nú er.

Þetta eru að vísu nokkur óþægindi fyrir einstaklingana, en til þess má ekki taka, er um svo brýna hagsmuni heildarinnar er að ræða, sem hjer.

Það er ekki tími til að vísa þessu máli til fjárhagsnefndar, en þannig heyrðist mjer hljóðið í fjárhagsnefndinni, að þeim fyndist full þörf á slíkum ráðstöfunum.