28.02.1920
Neðri deild: 18. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (918)

57. mál, peningamálanefnd

Bjarni Jónsson:

Jeg vissi ekki fyrst, að málaleitanir höfðu komið frá bönkunum, en jafnvel þótt svo sje, trúi jeg ekki, að slík nauðsyn sje hjer á, sem orðað hefir verið af hæstv. forsætisráðh. (J. M.) og hv. þm. Ísaf. (J. A. J.). Jeg efast um, að slíkt peningaráð geri hálft gagn á móts við það ógagn, sem það gæti gert.

Mjer skilst, að þessi nefnd eigi að hafa nokkuð mikið vald, er hún á að segja um og vera síðasti dómstóll um það, hvaða vörur sjeu þarflegar eða ekki. Með þessu getur nefndin stöðvað viðskiftin við hvaða land sem er. Hún getur lagt band á verslunina þannig, að menn megi t. d. ekki skifta við neitt land nema eitt, t. d. Danmörku, undir því yfirskyni, að það væri okkur nauðsynlegt sökum gengis peninga vorra. (Atvinnumálaráðh. (P. J.): Sá sem getur gert ilt, gerir það). Já, það er einmitt alveg rjett, og þess vegna er hættulegt að gefa nefndinni slíkt vald.

Mjer finst ástæða til, ef þessara ráðstafana þarf við, að gefa stjórninni þá sjálfri heimild til að framkvæma þær.

Jeg ætla það ískyggilegt, að stjórnin afhendi í fárra hendur mikinn hluta af því valdi, sem henni er ætlað. Hún ber altaf ábyrgð fyrir Alþingi, en þessir menn verða ábyrgðarlausir og eiga þó að stjórna öllum peningamálum landsins. Mjer þykir það einkennilegt, ef hv. þm. eru nú fúsir á að afsala sjer valdi sínu, því oft virðast þeir finna til þess, þegar um það er að ræða að láta einhverja illa launaða starfsmenn ríkisins njóta sanngirni, t. d. ef greiða á póstmönnum uppbót eða annað þess háttar. Þá finna fulltrúar þjóðarinnar til valdsins og eru tregir á að stofna fjárhag ríkisins í voða. En þeir telja það ekki voða að afsala öllum viðskiftum til fárra manna.

Það getur verið nauðsynlegt að hafa eitthvert eftirlit með peningamálefnum einstaklinganna, en það á þá stjórnin að hafa, því altaf er hægt að láta hana gera skil ráðsmensku sinnar. Hún á vitanlega að hafa leyfi til að kveðja sjer til aðstoðar hæfa menn, og skal jeg með ljúfu geði samþykkja fjárveitingu í þá átt, en hún má ekki koma ábyrgðinni af sjer; það tel jeg miklu hættulegra en þær smáfjárveitingar, sem mjer er altaf brigslað um. Hjer er um það að tala, að leggja tjóður á alt viðskiftalíf manna og láta þá, sem tjóðursins gæta, vera ábyrgðarlausa, nema gagnvart hegningarlögunum. Þetta gæti verið áminning til kjósenda um að athuga vinnubrögð fulltrúa sinna. Öllu virðist snúið öfugt í þessu máli. Bankana vantar fje til þess, að heilbrigð viðskifti og framfarir þróist, en þingið sinnir því engu. Það neitar að veita afbrigði, þegar um frv. er að ræða, sem fer fram á að auka starfsfje Landsbankans. En það stendur með öndina í hálsinum út af viðskiftum við önnur lönd, hvort þar sje nóg fje fyrir hendi og hvernig því skuli varið. Ekki nóg með það. Þingið hefði sennilega, ef tími hefði til þess unnist, leyft fjegjörnum mönnum að reka hjer skattfrjálsa peningaverslunm, þegar aðrir, t. d. útgerðarmenn, verða að greiða stórfje af útgerð sinni í ríkissjóð og það án tillits til þess, hvort þeir græða eða tapa. Og nú ætlar þingið að strjúka í kvöld. Það segir við stjórnina: Þú mátt fela Pjetri eða Páli öll velferðarmál þjóðarinnar, við megum ekki vera að því að hugsa um þau. Þetta mega þeir gera, sem vilja, en jeg geri það ekki.