28.02.1920
Neðri deild: 18. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (920)

57. mál, peningamálanefnd

Eiríkur Einarsson:

Jeg hefi látið það í ljós við fyrri atkvgr., að jeg væri mótfallinn frv.-moldviðrinu hjer á þingi, og þykir ef til vill sumum, að nú skjóti skökku við, þar sem jeg gerist flm. þessa frv. En jeg get rjettlætt það með þeirri brýnu nauðsyn, sem á því er.

Jeg skal taka það fram, að hjer hefir verið rætt frv. um bann gegn innflutningi óþarfa varnings. Þetta frv. er í fullu samræmi við það, sem jeg sagði, er hitt frv. var til umr. Jeg lagði áherslu á það, að sterk innflutningsnefnd yrði skipuð til að sjá um þessi mál, og nefndin, sem þetta frv. fer fram á, er samskonar og sú, sem jeg óskaði, þó hún heiti öðru nafni. Aðalatriðið er það að fá fasta íhlutun um innflutning til landsins. Við megum ekki sökkva okkur í skuldir og vandræði vegna gróðafíknar sumra og munaðar- og eyðslulöngunar annara. Jeg vona, að við því verði sjeð með þessari nefnd, og er þá aðaltilganginum náð.

Þá ætla jeg að fara nokkrum orðum um væntanlega skipun nefndarinnar. Það hefir verið talið sjálfsagt, að nefndarmenn yrðu sóttir úr bönkunum og verslunarráðinu. Jeg vil benda á það, að verslunarráðið er samsett af kaupmönnum, og þó þeir hafi góða þekkingu á þessum málum, þá má ekki láta þá nær einráða, því það getur komið fyrir, að hagur þeirra og þjóðarinnar rekist á. Jeg vil því skjóta því til stjórnarinnar að sækja nefndarmenn, að minsta kosti einhverja, á sem óháðasta staði, ef þess er kostur.

Það helsta, sem jeg finn að þessu máli, er það, hvað það er seint fram komið. Það ætti fyrir löngu að vera búið að banna innflutning á óþarfa varningi. Það hefði mátt flytja hingað heila kornfarma eða aðrar nauðsynjar, í stað þess að fylla Reykjavíkurbúðirnar með óþarfa. En það þýðir ekki að fárast um orðinn hlut. Það, sem orðið er, ætti að benda mönnum á, að kippa þurfi í taumana sem fyrst, og tel jeg sjálfsagt, að frv. nái fram að ganga.