28.02.1920
Neðri deild: 18. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (921)

57. mál, peningamálanefnd

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Herra forseti! Háttv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.) gat ekki hugsað til þess, að þessar ráðstafanir hefðu áhrif á gengi, og hæstv. forsætisráðh. (J. M.) tók í sama streng. Jeg er á alt annari skoðun. Ef við skuldum mikið, þá falla okkar peningar, ef við stöndum okkur vel, þá stíga þeir. Það, sem mest áhrif hefir í þessu efni, er hlutfallið milli innfluttrar og útfluttrar vöru. Sameiginleg myntslátta við Dani þarf ekki að koma til greina, því það eru ekki myntaðir peningar, sem stíga og falla, heldur seðlar, og þá höfum við ekki sameiginlega, þó enginn gengismunur sje á þeim.

Þá var það háttv. þm. Dala. (B. J.). Honum skildist það, að nefndin ætti að ákveða, frá hvaða landi menn ættu að kaupa vörur sínar. Þetta er misskilningur. Nefndin á ekki að gera aðrar ráðstafanir en þær, sem nauðsynlegar eru, og ekki hindra annað en það, sem óforsvaranlegt er gagnvart fjárhagi þjóðarinnar. Háttv. þm. vildi gefa stjórninni þetta vald, en þá yrði líklega lítið úr framkvæmdum, nema stjórnin fengi sjer aðstoð, og þá væri það sama, hvort sú aðstoð hjeti nefnd eða annað. Stjórnin getur ekki sagt um það, hvað megi flytja inn og hvað ekki. Það á að vera verk nefndarinnar. Bankarnir eiga líka að vísa mönnum til hennar og láta þá fá umsögn hennar, hvort það, sem beðið er um, er nauðsynlegt eða tiltækilegt. Þá hjelt hv. þm. (B. J.), að þetta yrði til að hindra viðskifti okkar við Danmörku. En nefndin á að sjá um viðskifti okkar við öll lönd og beina þeim helst þangað, sem hagkvæmast er. Yfirleitt reyndi þessi hv. þm. (B. J.) að gera væntanlegri nefnd sem verstar hvatir og litla skynsemi, og með því móti fjekk hann það út úr röksemdaleiðslu sinni, að stórhættulegt væri að skipa nefndina. Ef hann hefði haft það öfugt, gert ráð fyrir, að menn með viti og þekkingu og góðum vilja yrðu skipaðir í nefndina, þá hefði hann komist að gagnstæðri niðurstöðu.

Það hefir verið minst á bankamálið í þessu sambandi. Það er leiðinlegt, að ekki hefir unnist tími til að greiða úr því að þessu sinni. Jeg er sammála hv. þm. Dala. (B. J.), að nauðsynlegt sje að auka fje Landsbankans, en jeg vil ekki fara lengra út í það mál hjer.

Jeg held, að nauðsynin á þessari peningamálanefnd sje auðsæ, og vona, að menn greiði atkv. með frv.