28.02.1920
Neðri deild: 19. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (935)

57. mál, peningamálanefnd

Eiríkur Einarsson:

Þar sem hv. þm. Dala. (B. J.) var að tala um gerræði, þá skil jeg ekki, hvernig hann fer að leggja slíka merkingu í frv. það, er hjer liggur fyrir. Í þessu sambandi vil jeg geta þess, að eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi aflað mjer um ætlunarverk nefndarinnar, þá er það ætlunin að skipa hana til þess að styrkja bankana báða í starfsemi þeirra við eftirlit um peningagreiðslu út á við og til hvers þeim er varið, en alls ekki til að hindra þá, bankana, á nokkurn hátt, og geti þannig hvort orðið öðru til aðstoðar, nefndin og bankarnir, við þetta mikilvæga og nauðsynlega eftirlitsstarf.

Það atriðið, sem hv. þm. Dala. (B. J.) virtist leggja mesta áherslu á, get jeg fyrir mitt leyti ekki talið að mestu skifti, heldur verð jeg að leggja mesta áhersluna á það, að sjeð sje dýrmætu fje landsmanna borgið og að því ekki verði sóað út í bláinn, þegar mest ríður á að halda utan að því. Slíkt ríður aldrei í bág við frelsi vort nje fullveldi.