26.02.1920
Neðri deild: 15. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í C-deild Alþingistíðinda. (941)

53. mál, fótboltaferð um Austfirði

Flm. (Sveinn Ólafsson): Samvinnunefnd samgöngumála bárust í þingbyrjun margar umsóknir um styrki til flóabátsferða. Ein þeirra er um 30 þúsund krónur til flóabátsferða á Austfjörðum, milli Langaness og Hornafjarðar. Alls námu umsóknirnar röskum 72 þús. kr. til flóabátsferða, um Eyjafjörð, Ísafjarðardjúp og fyrir Suðurlandi, einkum sunnan Reykjaness. Á fundi samgöngumálanefndar var það samþykt með 7:5 atkv. að mæla ekki með neinni sjerstakri styrkbeiðni, en hafa atkvæði laus, svo nefndarmenn sjeu óbundnir, ef því verður hreyft á annan veg. Út af þessu hefi jeg leyft mjer ásamt 3 öðrum þdm. að koma fram með till., sem er á þgskj. 122. Jeg skal geta þess, að hjer er að eins farið fram á 2/3 hluta þess, sem upphaflega var um beðið, og að það er að eins styrkbeiðni fyrir yfirstandandi ár, en ekki til ársloka 1921. Á þgskj. 136, þar sem farið er fram á styrkveitingu til flóabátsferða með suðurströnd landsins, hefir styrkbeiðnin verið færð niður úr 20 þús. niður í 14 þús. fyrir yfirstandandi ár. En aftur á móti hefir umsókn um flóabátsferðir á Ísafjarðardjúpi, sem er 11 þúsund kr., ekki verið færð niður og hv. deild samþ. að veita þennan styrk, þó að síðasta þing hafi veitt 9 þús. kr. til sömu ferða.

Mjer finst því vera fylsta ástæða til að ætla, að hv. deild taki þessu máli vel. Ekki hvað síst þar sem hjer er að ræða um styrk til flóabátsferða við strandlengju, sem er alt að ¼ hluti landsins, og þar að auki afskektari samgöngum stærri skipa en aðrir hlutar landsins, þannig hagar til, að margir útkjálkar eru samgöngulausir, nema þar sem hægt er að koma bátaferðum við. Jeg ætla að taka það fram, að þó að í greinargerð fyrir þessari till. sje bent á ferðastyrk, sem áður var veittur að eins í sambandi við „Regin“, er það ekki tæmandi skýrsla um það, hvað hafi verið lagt til ferðanna. Næstliðið ár var annar bátur styrktur með 15 þús. kr., svo alls hefir styrkurinn verið 33 þús. kr. Það er ekki til mikils mælst að fá minni styrk en áður, þrátt fyrir það, þó rekstur vjelbáta sje nú dýrari. Er til þess ætlast, að sýslusjóðir leggi til það, sem á vantar.

Jeg finn ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar. Jeg tel það svo sjálfsagt, að það nái fram að ganga, og jeg trúi ekki fyr en jeg tek á, að hv. deild snúist illa við þessu. Á næstliðnu þingi var þessi till. feld, með það fyrir augum, að strandferðir þær, sem þarna yrðu, fullnægðu samgönguþörfinni, en reynslan hefir skorið úr, að þær eru ekki fullnægjandi, og á stöðum, sem ætlaðar voru 10–12 viðkomur á árinu, hröpuðu þær niður í 7–8 viðkomur.

Þess vegna óska jeg, að till. mín verði samþ., þar sem vonir þær, sem bygðar voru á viðkomu þessara skipa, hafa brugðist.