26.02.1920
Neðri deild: 15. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (942)

53. mál, fótboltaferð um Austfirði

Þórarinn Jónsson:

Ástæðan til þess, að þessar till. eru fram komnar hjer um þessar bátaferðir, er sú, að það komst allmikill glundroði á þetta mál í þinglokin á síðasta þingi. Þá voru 3 skip, sem höfðu strandferðir á hendi, og það verður ekki annað sagt en að þá væri málunum eins vel fyrir komið og hægt var. En í þinglok sagði sá maður, sem tekið hafði að sjer strandferðirnar fyrir Norðurlandi, að hann gæti ekki rekið þær, og hefir það kann ske nokkuð af því leitt, að inn kom fleygur í þetta mál, rjett fyrir þinglok. Eins og hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) gat um, þá bárust nefndinni þessi mál í hendur, en nefndin vildi ekki sem slík mæla með þessari beiðni, eins og sakir stóðu. Ástæðan var sú, að búið var að gefa út áætlun um strandferðir Sterlings á Norðurlandi.

Jeg tek þetta ekki fram af því, að ekki sje full þörf á ferðum, heldur af því, að þörfin er víða og æskilegt, að jafnrjetti ráði hjer sem annarsstaðar.

Eins og kunnugt er, hafa fyrirfarandi verið veittar 200 þús. kr. til strandferða við Húnaflóa, og ferðir Sterlings bundnar við þetta hjerað eins og önnur. Þess vegna finst mjer, að ef styrkbeiðnir þær til strandferða á Austfjörðum og Eyjafirði, er nú liggja fyrir þinginu, ná fram að ganga, þá verði út undan allmikið bil á strandlengjunni, eða allur Húnaflói, og því rjettmætt, að strandferðaskipið hafi fleiri viðkomustaði þar heldur en á þeim svæðum, þar sem flóabátur er.

Þessu vildi jeg leyfa mjer að beina til hæstv. stjórnar. Allir eru óánægðir með ferðir Sterlings, en eftir kringumstæðum gat stjórnin ekki hagað sjer öðruvísi. Engum dylst, að alstaðar eru miklar ástæður til að fá frekari samgöngur en nú er áætlað, og þess vegna vil jeg alls ekki mæla á móti rjettmæti þessarar styrkbeiðni.