26.02.1920
Neðri deild: 15. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í C-deild Alþingistíðinda. (947)

53. mál, fótboltaferð um Austfirði

Þorsteinn Jónsson:

Hv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) gat þess, að styrkur hefði ekki verið veittur, nema bátur hefði verið fenginn áður, og þingið hefði getað samið við þá menn, sem halda ætluðu bátnum úti. En jeg vil geta þess, að á þingunum 1917–1919 hefir styrkur verið veittur flóabátum á Austfjörðum, en það hefir aldrei verið vitanlegt, hvort bátur fengist, og sýslunefndir þar eystra og landsstj. hafa því orðið að taka þetta upp á sína arma. En jeg skal taka það fram, að þann mann, sem haldið hefir uppi þessum ferðum, hefi jeg talað við og spurt, hvort hann gæti haldið úti báti í þessum tilgangi. Hann kvaðst mundu geta það, en ekki með minni styrk en 30 þús. kr. úr landssjóði, ef það væri bátur á stærð við Regin. Á þessu bygði jeg það, að það er mjög erfitt að fá mann til að gera út bát á Austurlandi fyrir minna en 30 þús. kr. á ári. En viðvíkjandi þessu, sem rætt hefir verið um áætlun Sterlings, þá hygg jeg að ekki væri neitt hægt að draga úr henni.

En eins og jeg tók fram áðan, var tilætlunin, að þessi bátur kæmi þeim höfnum aðallega að notum, sem Sterling kæmi ekki eða mjög sjaldan á, en það eru, eins og kunnugt er, margar hafnir austanlands, sem Sterling kemur aldrei á.