14.02.1920
Neðri deild: 4. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (969)

2. mál, vatnalög

Sigurður Stefánsson:

Það eru allmargir þm., sem ekki höfðu búist við því, að vatnamálið kæmi til umræðu á þessu þingi, og eftir ræðu hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.), þá bendir alt til þess, að það hafi verið rjett álitið. Hann gat þess, að stjórninni hafi ekki unnist tími til að athuga málið eins rækilega eins og nauðsyn bar til, og skil jeg því ekki í því bráðlæti, að geta ekki beðið með frv., uns næsta reglulegt Alþingi var kvatt saman. Með því móti hafði stjórnin betri tíð og tíma til að athuga málið og semja till., sem að gagni mættu verða.

Á síðasta þingi bar jeg fram rökstudda dagskrá til að bjarga málinu úr fyrirsjáanlegum glundroða. Í þeirri dagskrá var ekkert tekið fram um það, að málið skyldi lagt fyrir þetta þing, heldur að eins fyrir Alþingi. Enda var það auðsætt, að ókleift var að undirbúa þetta stórmál svo vel undir þetta aukaþing, að það gæti að nokkru verulegu gagni komið. Jeg hugði jafnvel, að stjórninni myndi ekki vinnast tími til að undirbúa málið undir næsta þing, hvað þá þetta.

Af ástæðum þeim, sem hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) kom með, fæ jeg ekki annað sjeð en að hann sje mjer í raun og veru alveg samþykkur. Stjórnin var að engu leyti skylduð til þess að hafa undirbúið málið eða að leggja frv. fyrir þetta þing, og virðist því hafa rasað um ráð fram. Hún hefði átt að sjá það, að til undirbúnings málinu þurfti lengri tíma, og að það var í samræmi við hina rökstuddu dagskrá, er samþykt var á þingi í fyrra, þó málinu hefði verið frestað til næsta reglulegs þings.

Þetta aukaþing er vitanlega kvatt saman til þess að samþ. stjórnarskrána og komast út úr stjórnarvandræðunum. En til þess að útkljá fossamálin, svo að vel sje, þarf langan tíma, og til þess er þetta þing alls ekki komið saman. Áður en þingið ræðir þetta mál þarf það að vita, hvað þjóðin vill.

Hugir kjósenda eru mjög svo skiftir um þetta mál. Bændastjettin er hrædd og hikandi og hefir enga ákvörðun tekið enn. Ekki veit jeg af hverju hræðsla sú stafar, en jeg hygg, að hún ætti að hafa þau hollu áhrif á þingið, að það sæi sóma sinn í því, að fara hægt og gætilega og afla sjer allra þeirra upplýsinga, sem unt er að fá.

Í sumum kjördæmum er áhugi fyrir málinu, en í mörgum ótti svo mikill, að hann ætti að vera nægileg ástæða til þess, að hjer yrði ekki rasað um ráð fram. Kjósendum hefir eigi unnist tími, frekar en stjórninni, til að rannsaka og kynna sjer málið. Á leiðarþingum, sem jeg hjelt í haust fyrir kjósendur mína, ljet jeg það í ljós, að á þessu aukaþingi myndi fossamálinu ekki verða hreyft, og ljetu þeir sjer það vel líka. Það áleit jeg með öllu rjett.

Kjósendur eru ekki búnir að sjá nein gögn, og málið ekki nægilega undirbúið.

Á næstu þingmálafundum mun hver þm. telja sjer skylt að gefa allar þær upplýsingar, sem honum er auðið, og jafnframt komast að vilja kjósenda, og hann þar af leiðandi kunnur þinginu, sem haldið verður 1921. Þetta mál er þannig vaxið, að það ríður lífið á að athuga það frá öllum hliðum, þar sem það grípur svo mjög um líf og heill þjóðarinnar. Jeg skal hjer ekki fara út í nein ágreiningsatriði. Jeg er alveg sömu skoðunar í þessu máli og jeg var í fyrra.

Ef hjer á að fara að ganga frá þessu máli, svo nokkurt vit sje í, þá lengir það þingið að miklum mun, en jeg ófús að sitja hjer fram til sumars, og get jeg ímyndað mjer, að fleiri en jeg sjeu með því marki brendir.

Jeg tel rjettast, að þingið hraði sjer sem mest að afgreiða stjórnarskrána og mynda nýja stjórn, en að því loknu álít jeg að þingið hafi lokið þeim störfum, sem það nauðsynlega þarf að inna af hendi að þessu sinni.

Jeg leyfi mjer því hjer með að bera aftur fram rökstudda dagskrá, sem hljóðar þannig:

„Með því að vatnamálin hafa enn eigi fengið þann frekari undirbúning, sem síðasta Alþingi fal landsstjórninni að gera, og í trausti þess, að stjórnin taki þau aftur til rækilegrar meðferðar til næsta reglulegs Alþingis, þar sem það getur heldur eigi talist verkefni þessa aukaþings að ráða þeim til lykta, þá tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Mjer finst þessi rökstudda dagskrá geta líka átt við næsta mál á dagskrá.