14.02.1920
Neðri deild: 4. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í C-deild Alþingistíðinda. (971)

2. mál, vatnalög

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg skal reyna að svara þeirri spurningu háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), hvers vegna stjórnin hafi lagt þetta frv. fyrir, fyrst henni hefði ekki unnist tími til þeirra framkvæmda, er þingsál.till. frá í fyrra ætlaðist til. En jeg skal jafnframt taka það fram, að það svar er að eins hvað mig sjálfan snertir. Var tilætlunin sú, að gefa þinginu tækifæri til þess að vinna eitthvað að málinu til gagns, ef því sýndist svo, því jeg hefi aldrei búist við því, að því yrði ráðið til nokkurra lykta á þessu þingi. Annars skal jeg lýsa því yfir, sem minni persónulegu skoðun, að jeg legg enga áherslu á, að málið sje tekið fyrir, ef deildin treystist eigi til þess einhverra ástæðna vegna.

Hvað snertir átölur hv. þm. Dala. (B. J.), hvers vegna stjórnin hefði eigi tekið hin minni frv. einnig fyrir, þar sem hann taldi það svo lítillar stundar verk, þá er því til að svara, að slíkt var einnig hægt að gera á þingi, og hefði stjórnin eigi þurft nema hálftíma til þess að undirbúa þau frumvörp til framlagningar, þá má varla ætla, að þingmenn hefðu heldur tafið sig mikið til þess hins sama. En tilætlunin var, að vatnalagafrv. væri lagt fram sem heild, en ekki þegar í byrjun sundurgreining hinna ýmsu liða þess. En hvað Sogið sjerstaklega snertir, þá hygg jeg, að þm. sje kunnugt um það, hversu því er komið, sem þingið fal stjórninni að gera. Ætlaðist það ekki til, að stjórnin legði fram frv. þar að lútandi, heldur að hún ljeti rannsaka, hvernig þar gæti orðið að unnið með sem bestum kjörum.

En aðalágreiningsefnið á milli hv. þm. Dala. (B. J.) og mín skilst mjer vera það, að stjórnin skyldi ekki taka frv. meiri hl. fyrir. Þessu sýnist reyndar óþarft að svara, en jeg get þó getið þess, að tveir úr stjórninni lýstu því yfir, að þeir gætu ekki fallist á þá skoðun, að ríkið hefði vatnseignarrjettinn. Jeg lýsti engu yfir þá, en get bætt því við nú, að jeg er sömu skoðunar.

En ekki er nema eðlilegt, að hverjum þyki sinn fugl fagur, og hv. þm. Dala. (B. J.) haldi frv. meiri hl. fram. En annars hygg jeg, að það yrði of langur tími til að fara út í þau ágreiningsatriði nú.

Jeg tek það aftur fram, að þetta er að eins mín skoðun; hinir úr stjórninni geta svarað fyrir sig.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) mintist á útsendingu meiri hl. frv. og skýrði þar rjett frá.

Reyndi jeg að rannsaka það mál og talaði við póstmeistara. Sagði hann, að eigi hefði verið ætlast til, að svo færi sem fór, heldur að sendingin væri afgreidd með landpóstinum.