14.02.1920
Neðri deild: 4. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í C-deild Alþingistíðinda. (972)

2. mál, vatnalög

Magnús Kristjánsson:

Jeg bað um orðið vegna þess, að mjer virtist forseti ætla að bera upp dagskrána án þess að umræður yrðu um hana.

En nú hefir það farið á annan veg, og gæti jeg því fallið frá orðinu, eða að minsta kosti verið stuttorður.

Það kemur hjer fram, sem oftar, að erfitt er fyrir stjórnina að gera þinginu til hæfis.

Stundum eru ákúrurnar fyrir það, að of lítið sje gert, en nú eru þær fyrir það, að of mikið hafi verið gert.

Jeg leyfi mjer að segja, að það sje hálffruntaleg aðferð að vísa málinu þannig frá 1. umr. með dagskrá, því ekki hefði það þurft að tefja þingið stórum, þó það hefði verið athugað í nefnd.

Það eru víst allir sammála um það, að um endanlega ákvörðun gat ekki verið að tala að þessu sinni. En hins vegar heldur engin vanþörf á, ef hægt væri að marka skýrar stefnur, og það sem fyrst. Því þrátt fyrir hið mikla starf milliþinganefndarinnar, þá veitir þó víst mörgum fullerfitt að átta sig, og því nauðsynlegt, að málið væri sem skýrast, þegar það liggur næst fyrir þinginu til athugunar og afgreiðslu. — Væri það líka gott, að málið kæmi í nefnd, vegna þessa mikla ótta, sem hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) talaði um að vart hefði orðið meðal margra kjósenda víðs vegar um landið, að rasað væri fyrir ráð fram um úrslit þess. Annars hefi jeg ekki orðið var við þann ótta, nema þá hjá einstaka mönnum, og þá helst hjá fylgismönnum meiri hl. En þó sá ótti væri til staðar, þá tel jeg hann ástæðulausan, og þingi og stjórn vel til þess treystandi að fara hyggilega og gera það eitt, sem málinu gæti verið til gagns.

Jeg skal svo bæta því við, að það er mitt álit, að allur dráttur sje skaðlegur. Ef til vill er búið að draga ýmislegt, sem til slíkra framkvæmda heyrir, of lengi, og því ver, sem hinu sama fer lengur fram. Að vísu hefir ástandið í heiminum undanfarið rjettlætt þetta að nokkru, en vonandi fer það nú að lagast og hætta að valda kyrstöðu í þessum málum.

Jeg ætlaði að vera stuttorður, enda gefst vonandi tækifæri til þess að ræða þetta nánar síðar. Jeg vona, að öllum sje ljóst um atkv. mitt, að jeg er á móti dagskránni, og vona, að svo muni fleiri verða.