14.02.1920
Neðri deild: 4. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (973)

2. mál, vatnalög

Sveinn Ólafsson:

Jeg ætla ekki, að þessu sinni, að tala um einstök atriði frv., en sný mjer að heildarbyggingu þess. Umr. hafa farið nokkuð á víð og dreif, og jafnvel hjá sumum út fyrir efnið, því að hjer liggur að eins fyrir til umræðu frv. til vatnsrjettindalaga, en ekki til sjerleyfislaga, svo sem ætla mætti af orðum sumra hv. þm.

Því er haldið hjer fram, að almenningur óttist, að hjer eigi að lögfesta hættuleg og óþekt ákvæði, sem athuga þurfi betur; að hjer sje verið að færa belg yfir höfuð þjóðinni. Þetta er fáránleg yfirlýsing og tæpast af heilum huga fram komin. Með frv. því til vatnalaga, sem fyrir liggur, verður ekkert lögfest, sem eigi er áður í lögum hjer eða þá samstætt því. Ef um nokkra því líka hættu er að ræða, þá er hún þegar komin yfir oss með eldri lögum. Í frv. eru dregin saman í einn lagabálk fyrirmæli gildandi laga um vatnsrjettindi frá fyrri og síðari tímum og þar bætt inn í, sem eyður voru, eða löggjöfin ófullnægjandi, svo sem siðar mun sýnt.

Til þess að finna þessum orðum mínum stað skal jeg nefna nokkra lagaþætti, sem teknir eru upp í frv., og því gert ráð fyrir að falli úr gildi, ef frv. verður að lögum. Þeir eru: Vatnsrjettindaákvæði Jónsbókar í 22., 24., 45. og 56. kap. landleigubálks, 2. kafli fossalaganna svo nefndu frá 1907, vatnsveitulög fyrir kauptúnin frá 1912, áveitulögin frá 1913, lög nr. 51. frá 1915, um rafmagnsveitur o. fl. Enginn getur í alvöru haldið því fram, að hætta stafi af því, að draga saman í heild þessi dreifðu ákvæði laga um vatnsrjettindi. Ef einhver uggur eða ótti er hjá landsmönnum við frv., sem jeg reyndar tel yfirskinsástæðu mótstöðumanna þess, þá ætti hann að stafa af nýmælum þeim, sem frv. flytur. Þau eru einkum í 5., 8., 9., 10. og 12., kafla og lúta að þurkun lands, vatnsmiðlun, umferð á vötnum, mannvirki í vötnum og stjórn vatnamála. Því nær öll þessi nýmæli eru sniðin eftir samkynja löggjöf annara Norðurlandaþjóða, og löguð eftir landsháttum hjer. En svo sem kunnugt er, hafa allar þessar þjóðir, eins og vjer Íslendingar, bygt vatnalöggjöf sína á þeirri sjereignarundirstöðu landeiganda á vatninu og hlunnindum þess, sem ríkt hefir hjer frá ómunatíð, og nýmælin geta þeirra hluta vegna alls eigi verið hættuleg. Annað mál er það, hvort þau eru nógu ítarleg, en reynslan ein getur þar skorið úr.

Það leynir sjer að vísu ekki, að á bak við þessa vefengingu á haldkvæmi frv. liggur kórvilla sú, sem kom hjer fram fyrir ári síðan, að ríkið ætti öll vötn, jafnvel á löndum einstakra manna, en nú er því líkast, sem sumir stuðningsmenn hennar vilji ekki hafa hátt um hana.

Jeg tók svo eftir, að hv. þm. Dala. (B. J.) væri óánægður við stjórnina út af því, að hún skyldi ekki hafa lagt ýms smærri frv. meiri hl. fyrir þetta þing, t. d. frv. um raforkuvirki, og stjórn vatnamála. — Jeg heyrði ekki, hvernig hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) svaraði þessu atriði, og því ætla jeg að fara um það nokkrum orðum.

Ástæðan til þess, að frv. þessi hafa ekki verið tekin hjer með, er bersýnilega sú, að efni þeirra er tekið upp í frv. minni hl., þótt því sje þar á annan veg skipað en hjá meiri hl. Það hefði því verið tvítekning efnis, að bera þau frv. fram jafnhliða þessu frv. — Það kom fram hjá hv. þm. (B. J.), að fyrir þá skuld, að stjórnin hefði ekki borið fram þessi aukafrv., væri hjer ekki um neina samfelda vatnalöggjöf að ræða. Þetta skil jeg ekki. Hjer er einmitt um „heilsteypta“ vatnalöggjöf að tefla, þar sem bæði eru vatnsrjettindalög, og jafnframt lagt fram frv. til sjerleyfislaga um hagnýtingu á vatnsorku.

Vatnalöggjöf þeirrar þjóðar, sem vjer hljótum hjer að mestu að hafa til fyrirmyndar, Norðmanna, er einmitt fólgin í þessu tvennu, og þó, að því er kemur til vatnsrjettindalaganna, ekki nærri eins ítarleg og frv. þetta.

Jeg leiði hjá mjer að svara því, sem hv. þm (B. J.) sagði um eignarrjettinn að vatni. Jeg álít ekki æskilegt eða þarft að þræta hjer um það, hvort hinn germanski eða rómverski skilningur á þessum rjetti eigi betur við hjer á landi, eða hvor þeirra hafi verið hjer lögfestur. Það liggur öllum þeim í augum uppi, sem hleypidómalaust líta á málið.

Jeg vil taka undir það með hv. þm. Ak. (M. K.), að ef samþ. ætti þá rökstuddu dagskrá, sem fram er komin, þá væri máli þessu lítil virðing sýnd. Það er og gersamlega rangt hjá flm. dagskrárinnar (S. St.), að slík meðferð á málinu sje nauðsynleg, vegna ónógs undirbúnings. Málið er einmitt vandlega undirbúið, og ætti í raun og veru ekkert að vera því til fyrirstöðu, að lögleiða þegar í stað vatnsrjettindafrv. með litlum eða engum breytingum. — Hitt er eðlilegt, að ágreiningur nokkur verði um frv. til sjerleyfislaga, og að mörgum sýnist rjett að geyma það næsta þingi. Jeg endurtek það, sem hv. þm. Ak. (M. K.) sagði, að samþ. dagskrárinnar er óviðurkvæmileg skyndiafgreiðsla á þessu máli, og minna má eigi vera en að þm. fái að vinna að málinu og kynnast því, meðan þingtíminn varir, því að vissulega hafa margir þeirra enn þá kynst því of lítið.