14.02.1920
Neðri deild: 4. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í C-deild Alþingistíðinda. (979)

2. mál, vatnalög

Eiríkur Einarsson:

Jeg vil bæta því við og ítreka það, sem jeg hefi áður sagt, að ef nokkurt mál verðskuldar að fara til nefndar, þá er það þetta. Það eru að ryðjast í nefndir ýms önnur mál, sem eiga ekkert erindi. Ef mönnum er það heilindi að hafa þingið stutt, þá eiga þeir ekki að koma með slík mál, eða eyða miklum tíma í þau, þar sem engin nauðsyn krefur, að þau verði afgreidd eða rædd á þessu þingi. Jeg get nefnt í þessu sambandi t. d. heilan sifjabálk, sem fram er kominn, og fleira og fleira. Aukaþing á ekki að fjalla um slík mál. Þetta þing er komið saman til að afgreiða tvö mál, sem oft hafa verið nefnd, og svo til að ræða önnur þau mál, er nauðsyn knýr til að tekin sjeu til athugunar. En slíkt mál er fossamálið, og á það að hafa forsæti fyrir öðrum málum.

Það er greinilegt um þessa dagskrá, hvar fiskur liggur undir steini. Þeir, sem eru á móti málinu, verða með henni, því þeim er ekkert kærara en að það verði kæft að fullu og öllu. Þeir, sem eru hálfir og nenna ekki að sýna málinu alúð, þeir verða og með henni, og virðast þeir láta sig litlu skifta, til hvers þingtíminn fer.

Það er talað um, að málið vanti undirbúning, og svo er spurt, hvaða undirbúning það fái, þó kákað sje við það nú, en það látið óútkljáð.

Í þessu sambandi vil jeg ítreka það, að einmitt af því, að málið vantar undirbúning og þjóðin er ekki búin að átta sig nógu vel á því, eins og haldið er fram og jeg er sammála um, því sjálfsagðara er, að þetta þing taki málið til rækilegrar athugunar á meðan það á setu hvort eð er, þótt það yrði að engu leyti afgreitt sem lög frá þinginu. Ef málið kemst í nefnd og til umræðu, gætu þm. látið í ljós og leitað skýringa viðvíkjandi mörgum málsatriðum, sem kunna að vera vafasöm. Því málið þarf að skýrast að mörgu öðru leyti en því, er snertir mælingar og rannsóknir sjerfræðinga, enda er það einnig þingsins að athuga, hvað næst liggi slíkra rannsókna. — Og þeim, sem mest þykir vanta á undirbúning vatnamálsins, stendur það fjarst að andæfa nefndarskipun og umræðum. Og hverjum stendur það nær en einmitt háttv. þm. að ræða slík mál, gera tillögur og benda á leiðir til heillavænlegra málaloka? Á þessu stigi málsins er það sjerstaklega nauðsynlegt, ef það er ætlunin að leita einhverrar úrlausnar á vatnamálunum á næsta reglulegu Alþingi.

Jeg vildi leyfa mjer að benda á það, að þar sem vatnahjeruðin eystra, Árnesingar og Rangæingar, hafa nú við síðustu kosningar algerlega skift um fulltrúa sína til Alþingis. Þá er einnig á það að líta, að þessi hjeruð, sem nýbreytnin við fyrirhugaða vatnavirkjun hlýtur sjerstaklega að koma niður á, hvort sem það verður meir til góðs eða ills, eiga rjett á því að fá áheyrn Alþingis um svona mikilvægt mál, þegar það og er hæstv. landsstjórnin, sem kveður sjer þar hljóðs, með frv. þeim, er hún leggur fram, og hinir nýkjörnu fulltrúar vatnahjeraðanna hafa fylstu ástæðu til þess að vilja komast að, hver andi þingsins er um málið, jafnframt því að láta eigin vilja sinn í ljós um mesta áhugamál kjósenda sinna og jafnvel alls landsins. Jeg vil því eindregið mótmæla dagskránni, því ef nokkurt þingmál verðskuldar, að um það sje rætt, þá er það fossamálið. Og ef nokkrir þm. greiða atkvæði með þessari rökstuddu dagskrá, þá eru það þeir, sem engar framkvæmdir vilja í málinu, og er mest umhugað um, að það sje dregið á langinn.