14.02.1920
Neðri deild: 4. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (980)

2. mál, vatnalög

Pjetur Jónsson:

Jeg er nokkurn veginn á sama máli og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að það hefði raunar ekki þurft að liggja fyrir þessu þingi að ræða þetta mál. Lít jeg svo á, að stjórnin, sem búin var að sækja um lausn, hafi ekki verið knúð til að skifta sjer af málinu, heldur sú stjórn, sem tekið gæti málið að sjer, sem slík, til fullkomins flutnings. En úr því málið er komið fram í þinginu, get jeg samt ekki verið því samþykkur, að það sje felt frá nefnd. Jeg álít, að málið hafi heldur en hitt gott af því, að það skýrist fyrir mönnum og menn glöggvi sig enn þá betur á því. Jeg ætlast ekki til, að það sje látið tefja fyrir þinginu; því við úrslitum býst jeg ekki í þetta sinn. En ef við þingm. sitjum hjer saman um alllangan tíma hvort sem er, sýnist, að rjett sje að nota tímann til þess að átta sig betur á málinu. Jeg segi fyrir mig, að jeg hefi ekki haft tíma til að lesa það niður í kjölinn, og jeg get vel búist við því, að svo sje um fleiri.

Sem sagt, jeg álít, að málið græði á því, að nefnd sje kosin í það, sem ræði það meðan tími vinst til, en vil þó ekki, að það lengi þingið fram yfir þarfir fyrir önnur málefni þingsins.