14.02.1920
Neðri deild: 4. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (983)

2. mál, vatnalög

Eiríkur Einarsson:

Að eins stutt athugasemd. Það gleður mig, að hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) vill sýna málinu alúð — en einkennilegt að vilja endilega fá útdrátt úr þessu nefndaráliti. Hv. þm. (Sv. B.) getur ekki verið alvara, ef hann vill halda því að þinginu, að almenningur geti á nokkurn hátt áttað sig betur á málinu með útdrætti af öllum þeim tvístraða vilja, er lýsir sjer í skrifum fossanefndarinnar. Jeg held, að það yrði fremur til þess að rugla þjóðina. Jeg vil endurtaka það, að þar sem nýtt þing er kosið, þá getur líka verið kominn nýr vilji inn í þingið. (B. J.: Gamall) Jeg álít, að það sje sæmra að gefa þessu alvarlega máli gaum heldur en að skrifa æsingagreinar í misjöfn blöð fyrir kosningar um það mál, sem helst þarf að ræða með stillingu. Jeg verð að álíta, að eitthvað blandinn vilji liggi á bak við það, að bera fram svo hljóðandi rökstudda dagskrá, eins og hjer hefir fram komið, eða vilja styðja hana.