14.02.1920
Neðri deild: 4. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í C-deild Alþingistíðinda. (986)

2. mál, vatnalög

Magnús Kristjánsson:

Allmargir hv. þm. hafa gert mjer þann heiður, að minnast á afstöðu mína til þessa máls, en jeg sje ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um það, nje heldur það, hvort sæmilegt sje að vísa málinu á bug, eins og hjer hefir verið talað um. Þó get jeg ekki stilt mig um að víkja nokkrum orðum að smáhníflum, sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sendi mjer.

Hann var mjög kampakátur yfir því, að jeg væri að gera gælur við hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.); hann hefir nú sjálfur lýst því yfir, að þessi ummæli væru tilhæfulaus, eins og fleira hjá þessum hv. þm. (G. Sv.), og get jeg því leitt það hjá mjer, sem annað marklaust hjal. En það var annað, sem sami hv. þm. (Sv. Ó.) hjelt fram og frekar gæti talist miður sæmilegt, þar sem hann gaf í skyn, að jeg væri nokkuð laus á kostunum. Jeg veit satt að segja ekki, hvort hjer hefir nokkur dýpri meining legið á bak við. En jeg held nú, að eins vel mætti segja, að sá þm. (G. Sv.) væri dálítið víxlaður á góðganginum.

Hv. þm. Dala. (B. J.) þarf jeg ekki að svara; hann veittist ekkert að mjer persónulega.

Aðalatriði þessa máls er það, að þau frv., sem hjer liggja fyrir, gætu orðið til þess, að greiða fyrir málinu, ef hv. þing sjer sjer fært að taka þau til íhugunar, en það er einmitt þetta, sem dagskrármönnunum virðist vera svo meinilla við.

Það er hins vegar víst, að það eru margir aðrir hv. þm., sem óska eftir að fá þeim spurningum svarað sem fyrst, hvort leyfa eigi útlendum og innlendum að starfrækja eitthvað af því ótæmandi vatnsafli, sem er í landinu. Þetta má líta á frá tvennu sjónarmiði. Sumir vilja ekkert láta starfrækja, nema nokkur þúsund hestöfl Sogsfossanna til hagnýtingar fyrir Reykjavík.

Að þessu leyti álít jeg að það sje skylda þingsins að taka þessi frv. til meðferðar, til þess að gera eitthvað til að fá þeirri spurningu svarað, sem jeg hefi áður talað um.

Jeg skal svo eigi fara fleiri orðum um þetta, en að eins geta þess, að mig furðar á því, að hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) skuli taka því með þökkum, sem sumir hv. þm. hafa viljað drótta að honum, að hann vilji fá aftur framan í sig lagafrv. þau, sem hann hefir nú lagt fyrir þingið.

En jeg hygg, að hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hafi leyft sjer að leggja alt of mikið í orð hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.), enda mun það ekki rjett, að hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) hafi verið að mælast til þess.