14.02.1920
Neðri deild: 4. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í C-deild Alþingistíðinda. (988)

2. mál, vatnalög

Jón Auðunn Jónsson:

Mjer virðist deilan standa um það, hvort málið græði meira á að komast í nefnd eða verða vísað aftur til stjórnarinnar.

Af þeim ræðum, sem hjer hafa komið fram, og skv. skoðun minni á málinu, finst mjer, að málið fremur græði á að láta það bíða reglulegs þings heldur en að setja þingnefnd í það.

Ástæðan til þess er sú, að jeg tel málið munum tapa á því, að fara í nefnd án frekari undirbúnings eða rannsóknar, því það er gefinn hlutur, að þar mundu verða eins margar skoðanir og mennirnir eru. Og meðan það er víst, að þingið muni ekki ganga frá málinu, sje jeg því minni ástæðu til að setja málið í nefnd.

Jeg álít, að það hlyti að lengja þingtímann, yrði málið sett í nefnd, og þar sem jeg álít, að málið myndi ekki græða á nefndarskipun og ekki rjett að lengja þingtímann, mun jeg greiða dagskránni atkv. mitt.

Háttv. þm. N-Ísf. (S. St.) ávítti stjórnina fyrir að leggja málið fyrir þingið, en stjórnin getur haft fullgildar ástæður til þess.

Margir nýir þm. hafa nú bæst við, og einnig hafa raddir komið frá þeim um, að málið yrði nú lagt fyrir. En þrátt fyrir þetta álit jeg undirbúning málsins nú ekki svo góðan, að rjett sje að taka það fyrir þingið nú, og það því fremur, sem það mun lengja þingtímann.

Jeg vona, að það hafi verið fljótræði hjá hv. 1. þm. Árn. (E. E.), er hann vildi veita þeim hv. þm. ákúrur, er fylgdu dagskránni, fyrir að þeir hefðu ekki fulla alúð á málinu.

Það er ekki rjett, því hann hlýtur að skilja það, að allir hv. þm. og þjóðin í heild sinni hljóta að hafa fullan vilja og einurð í þessu máli. Og auk þess er dagskráin þannig orðuð, að engin ástæða er til að álíta, að hv. tillögumaður komi með ákúrur á hæstv. stjórn, enda er það algerlega ástæðulaust.