03.05.1921
Efri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

20. mál, afstaða foreldra til skilgetinna barna

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg verð að játa, að jeg hefi ekki athugað orðabreytingarnar nægilega. Vona þó, að þær breyti hvergi efni að neinum mun. Orðalag nefndarinnar er víst að mörgu leyti viðkunnanlegra, en þó er jeg ekki alveg viss um að svo sje alstaðar. Jeg rek mig hjer t. d. á eitt orð í 11. gr„ það er orðið „innræta“. Það er nú ef til vill gott og gamalt orð, en jeg kann þó ekki við það, og finst orðið „temja“ gott.

Þessi eina efnisbreyting, sem nefndin hefir gert, er ofursakleysisleg, en gæti þó verið dálítið athugaverð. Ef það hjóna, er annað yfirgefur, er ekki því betur efnum búið, þá getur verið erfitt fyrir það að greiða meðlag fyrirfram fyrir þá ár. (Jóh. Jóh.: Það er eins og um börnin). Nei, það er alt annað. Barnsmeðlög eru varla mjög há, en meðlag til konu t. d., og það mundi venjulega vera maðurinn, er greiða á, getur orðið talsvert hátt, svo að maður getur þurft að leggja út svo þúsundum skiftir í einu, en ef mánaðargreiðsla væri, mundi maðurinn geta greitt það af starfsemi sinni eða launum. Jeg má segja, að maður hefir orðið að greiða 5–6 þús. kr. með konu sinni á ári, og er þá nokkur munur, hvort greiddar eru 3000 kr. í einu eða 500 kr. á mánuði. Hið síðara getur verið manninum kleift, þótt hið fyrra sje það varla.