03.05.1921
Efri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

20. mál, afstaða foreldra til skilgetinna barna

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Jeg skal geta þess, að það hjóna, sem yfirgefur hitt, hefir valdið hjúskaparslitum á ólöglegan hátt, og er því hjer ekki um saklausan að ræða. Greiðslan, sem hjer er rætt um, er bæði til barna og hins hjóna, og getur það líka verið há upphæð, sem með börnunum fer, ef þau eru mörg. Nú á samkv. frv. meðlag með börnum að vera greitt fyrirfram fyrir hálft ár í senn, og er þá eðlilegast, að báðar greiðslurnar geti orðið samferða, enda er erfitt að þurfa að ganga eftir meðlagi mánaðarlega. Og því vafningaminni verður innheimtan sem færri eru gjalddagarnir.

Enn fremur er á það að líta, að ekki er nærri altaf hinu brotthlaupna gert að skyldu að greiða meðlag með hinu. Og meðlagshæðina á að miða við hag beggja hjóna, og getur hún breyst, ef ástæður þeirra breytast. Ef efnin eru nú svo mikil, að hægt sje að gera hátt meðlag, þá sje jeg ekki, að það sje ósanngjarnt, þótt það eigi að greiða fyrir hálft ár í einu.