21.02.1921
Neðri deild: 5. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (1029)

10. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Fjármálaráðherra (M. G.):

Í ástæðunum fyrir þessu frv. er gerð grein fyrir því, hvers vegna haldið er útflutningsgjaldi af síld, þótt ætlast sje til, að önnur útflutningsgjöld falli niður. Þessar ástæður vil jeg ekki endurtaka hjer, því að jeg þykist vita, að háttv. þm. hafi kynt sjer þær, og jeg vona, að meginþorri háttv. deildarmanna sje þeim samdóma, enda er stefna frv. alveg samræm því, sem samþ. var Alþingi 1919, í öllum meginatriðum, þar á meðal um gjaldhæðina.

Jeg mun ekki fara fleiri orðum um frv. við þessa umr., nema andmæli komi fram, en legg til, að því verði vísað til fjárhagsnefndar, þegar þeir, sem eitthvað kynnu að hafa á hjarta, hafa leyst frá skjóðunni.