18.02.1921
Efri deild: 3. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

26. mál, íslensk lög verði aðeins gefin út á íslensku

Forsætisráðherra (J. M.):

Um frv. sjálft get jeg í ranninni látið mjer nægja að vísa til athugasemdanna við það. En mjer þykir rjett að minnast þeirrar baráttu, er lög þau, er frv. fer fram á að nema úr gildi, eru síðasti vottur um. Jeg skal ekki fara lengra aftur í tímann en um miðja 18. öld.

Frá því um miðja 18. öld er það stöðug regla dönsku stjórnarinnar, að öll eða að minsta kosti hin merkustu lagaboð, sem snertu þetta land, voru prentuð á íslensku sjer í lagi og undirrituð af konungi og með undirrituð af ráðherra. Þetta stóð þangað til í byrjun 19. aldarinnar. Jafnframt þessu var landsyfirdómi með kansellíbrjefi 14. maí 1803 falið að íslenska tilskipanir (danskar) og velja þær, sem hjer ættu við. Þessi ákvörðun stóð þangað til 1831, og koma þá engar aðrar íslenskar þýðingar á tilskipunum, en útleggingar þessar voru prentaðar sem í bók, hver eftir aðra, án undirskriftar.

Svo kemur konungsúrskurður 26. okt. 1831 um að tilskipanir, sem þetta land snerta, skuli jafnskjótt íslenskaðar í Kaupmannahöfn og íslenskan prentuð við hlið dönskunnar á hverri síðari blaðsíðu. Þetta stóð þangað til Alþingi var endurreist. Þá kemur það einkennilega fyrir, að breyting varð til hins verra. Rentukammerið hjelt sjer við hina venjuna, en kansellíið gaf út lögin, sum að minsta kosti, þannig, danskt „frumrit“ á undan, íslenskuna á eftir, og þar yfir skrifað, að þetta væri útlegging „danska frumritsins“. Þetta er nánar útlistað í bænaskrá, sem Jón Sigurðsson bar fram á þinginu 1847, um að íslenski textinn fái undirskrift konungs og með undirritun ráðherra. Er þar sýnt fram á hve fráleitt það sje, að lögin sjeu lögð fyrir og afgreidd frá Alþingi á íslensku, og auglýst þannig til eftirbreytni, en danskan sje frumritið og hinn undirskrifaði gildi texti, en hið auglýsta lagaboð óundirskrifuð þýðing.

Um þetta er nánar í Alþt. 1847. Auðvitað var samþ. að biðja um undirskrift konungs undir íslenska textann með undirskrift viðkomandi stjórnarráðs. eins og tíðkast um frumrit laga. Beiðni þessi var endurtekin á þingunum 1849 og 1853, en fjekk enga áheyrn. Þingið 1849 gekk lengra en hin þingin, því að það fór fram á að íslenski textinn einn væri undirritaður. Það var þó gerð sú bót með auglýsingu Alþingis 7. júní 1858, að íslensku þýðinguna skyldi staðfesta af manni, er konungur skipaði til þess, forstjóra íslensku stjórnardeildarinnar í Kaupmannahöfn.

Enn fór Alþingi 1857 fram á það sama sem þingin 1847 og 1853, og fjekk þá loks bæn þessi áheyrn, því með konungsúrskurði 29. maí 1859 var ákveðið að íslenski textinn skyldi undirritaður af konungi. Eftir þessu voru þá gefnir út tveir textar, íslenskur og danskur, svo að enn var ekki girt fyrir rjettaróvissuna, fyrir utan það, að danski textinn var alls ekki samþ. af Alþingi, og þó stóð þetta lengi eftir að þingið hafði fengið löggjafarvald. 1887 og 1889 samþykti þingið þál. um að einungis hinn íslenski texti af lögunum skuli staðfestur af konungi. Kröfu þingsins 1887 var ekki sint, en ítrekun hennar 1889 hreif, svo að stjórnin lagði fyrir þingið 1891 frv., sem varð að lögum. Samkvæmt þeim lögum staðfestir konungurinn síðan ísl. textann einn, en stjórnarráðið fyrir Ísland skyldi staðfesta danska þýðing á lögunum; á þýðingu þessari skyldu dönsk yfirvöld og dómstólar byggja. Það er sjálfgefið, að enn var ekki fyrirbygt með öllu, að lögunum yrði breytt öðruvísi en íslenskan segði, er danskur hæstirjettur var æðsti dómur í íslenskum málum. Kom svo fram frá þingmanna hálfu á þinginu 1913 frv. um að fella niður ákvæðið um þýðinguna. Það frv. var felt, en neðri deild samþykti þál. um að fella úr Stjórnartíðindunum dönsku þýðinguna. Þetta var gert, en þýðingunum safnað saman sjerstaklega sem í bók, og þær látnar fylgja Stjórnartíðindunum þangað til 1917. Frá og með 1918 var þessu hætt. Nú stendur samt lagaákvæðið, og þótt það sje auðsætt, að það geti ekki átt við, c: 2. gr. umræddra laga, eftir 1. des. 1918, þá er þó rjett að afnema það. En þá er og rjett að afnema öll lögin, því að það er jafnóþarft að taka það fram, að konungur staðfesti að eins íslenska texta laganna, eins og að taka það fram, að Alþingi eigi að semja lögin á íslensku.