25.04.1921
Neðri deild: 51. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

10. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Magnús Jónsson:

Þessar breytingar háttvirtrar fjárhagsnefndar á stjórnarfrv. eru sjálfsagt breytingar í rjetta átt. Hún viðurkennir, að gróðavegurinn sje nokkuð stopull af síldarsölunni, og því sje full ástæða til að draga nokkuð úr tollinum, þó að ákveðinn sje, ef illa tekst, en hins vegar sýnist mjer, að nefndin hafi eigi gengið nógu langt. Sýnist mjer sem hjer sje verðtollur það eina sanngjarna.

Þætti mjer vænt um að fá skýrslu um það frá háttv. fjhn., hvort hún hefði athugað þessa leið, og ef svo væri, hvort hún hefði þá sjeð mikla örðugleika á henni.

Ef útflutningsgjaldið er miðað við verð síldarinnar, þá getur það orðið feiknahátt, en þá kemur það rjettlátlega niður, því að það er fyllilega sanngjarnt, að ríkissjóður fái sinn skerf, þegar uppgrip eru mikil hjá útgerðarmönnum. Aðalerfiðleikarnir við verðtollinn eru því að ákveða takmarkið, þar sem ætti að byrja að taka hann. En hægt væri að láta Hagstofuna safna skýrslum um framleiðslukostnaðinn, og miða svo við það. Gæti jeg felt mig við, að greiða mætti lágmarkstoll af síldinni, jafnvel þó að skaði yrði af sölunni, t. d. þó að framleiðslukostnaður á tunnu væri 60 kr., því að þá mætti þó ákveða toll af því, sem færi yfir 50 kr., en hitt verður að fyrirbyggja, að tollur sje greiddur, jafnvel þó stórskaði verði, því að þá er skattur greiddur af mestu útgjöldunum, í stað þess að greiða hann af tekjunum, sem auðvitað er það rjetta.

Vil jeg svo að síðustu ítreka þá ósk mína, að nefndin geri grein þess, hvort hún hefir athugað verðtollsleiðina, og ef svo var, hvað það var þá, sem aftraði henni frá að fara þá leið.