25.04.1921
Neðri deild: 51. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

10. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg gat þess við 1. umr. þessa máls, að jeg mundi koma með í fjhn. frv. til laga um verðskatt, sem kæmi í stað stjórnarfrv. Þetta gerði jeg, og hefir nefndin athugað það nokkuð, en jeg hefi þó aðhylst stjórnarfrv. með þeim breytingum, sem nefndin hefir gert á því.

Jeg er sammála háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) í því, að hið eina rjetta í skatti á útfluttri vöru sje verðskattur, sem lagður er á ágóða. Þá gengur ríkissjóður of langt, er hann skattleggur tap manna, og útfluttar vörur má eigi skatta svo, sem hjer er gert. Og þó að jeg hafi nú orðið samferða meðnefndarmönnum mínum, þá er langt frá því, að jeg sje ánægður, en sýndist rjettast að snúast ekki á móti þessu til bráðabirgða, en jeg vænti þess fastlega, að útflutningsgjaldi af allri vöru verði bráðlega svo fyrirkomið, að ekki verði annað skattlagt en ágóðinn.

Viðvíkjandi útlendingunum, sem hjer stunda veiðar, er það að segja, að allir munu kannast við, að við stöndum mun ver að vígi en þeir. Því er t. d. nú slegið föstu, að Svíar skuli fá styrk úr ríkissjóði, til þess að stunda veiðar hjer, og einnig að öðru leyti hafa þeir betri aðstöðu. Aðflutningur á tunnum og salti er miklu ódýrari hjá þeim en okkur. Þeir hafa skip, er koma með þetta til þeirra og taka svo síldina frá þeim og flytja hana út, en við þurfum að leigja dýr skip til þessa. Auk þessa sleppa þeir útlendingar, sem eigi búa hjer, ljettara við skattabyrðina en við.