25.04.1921
Neðri deild: 51. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

10. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg verð að taka það fram, að jeg álít, að brtt. háttv. nefndar sjeu ekki til bóta. Það lítur að sönnu vel út að ætla að endurgreiða, ef síldin selst undir framleiðslukostnaði, en þetta er nú samt sem áður eigi svo mikil sanngirni, sem það sýnist í fljótu bragði.

Það mun oft vera svo, að duglegi og hygni maðurinn selur vel, en sá fyrirhyggjulausi illa. Færi þá svo, að hygni maðurinn fengi ekkert endurgoldið, en hinn, sem illa fer að ráði sínu, fær það. Sýnist mjer þetta allvarhugavert.

Auk þessa er það mikill vandi að afgera um kostnaðarverðið, og hygg jeg, að það verði mjög erfitt að fá ábyggilegar sannanir um það. Býst jeg við, að hjer sje gengið út frá kostnaðarverði hvers einstaks manns, og verða þá verðlögin jafnmörg og síldveiðamennirnir eru. Getur þá enn leitt af þessu, að óhagsýnustu og duglausustu mennirnir hafi mestan hagnaðinn af þessu. Þeir hleypa útgerðarkostnaðinum upp úr öllu valdi, og fá svo tollinn endurgreiddan. Lítur því þetta óbeinlínis svo út, að hjer sje verið að verðlauna ódugnaðinn og óhagsýnina.

Ef brtt. þessar hafa fylgi hjer í háttv. deild, þá þarf nauðsynlega að athuga þetta vel fyrir 3. umr. og koma með ákvæði, sem fyrirbyggir þetta. Ef það er meining nefndarinnar, að sama kostnaðarverð eigi að vera hjá öllum, þá þarf að taka þetta fram.

En þótt ráðin yrði bót á þessu, mun jeg ekki geta fylgt brtt. nefndarinnar, einmitt fyrir þá sök, að jeg er samdóma nefndinni um, að síldveiðar sjeu, eins og nú stendur, miður hollur atvinnuvegur. Jeg er nefndinni samdóma um, að þessar veiðar gefa stundum mikinn arð og stundum mikinn skaða, og verða því að teljast töluvert hættuspil. Nú vil jeg ekki hvetja neinn til að leggja fjármuni sína í hættu í þessum atvinnuvegi, en verði brtt. nefndarinnar samþ., er það sterk hvöt til að stunda þessar veiðar, og meira að segja yfirlýstur vilji Alþingis um, að ríkissjóður skuli taka þátt í þessari áhættu að ekki óverulegum hluta. Það mundi verða talinn mikill stuðningur við aðra atvinnuvegi, ef slíkar ívilnanir væru settar, og jeg neita því ákveðið, að síldveiðarnar eigi þetta skilið öðrum atvinnuvegum fremur.

Það verður að minnast þess, að síldveiðarnar eru versti keppinautur bænda um vinnukraft um sláttinn, og hver getur reiknað út það böl, sem af því getur leitt og hefir leitt.

Það er nú reyndar gott og blessað og ekkert við því að segja, þegar síldin kemur og vel veiðist, en þegar hún kemur ekki eða kemur seint og fólkið verður að bíða vikum saman og aðhefst ekkert, þá fer allur sá vinnukraftur til einskis, eða er ónotaður á þeim tíma, er hans er allra mest þörf í sveitum. Þetta er mikið böl, og úr því vil jeg draga, en ekki auka það.

Annars get jeg í þessu efni vísað til aths. við frv. mitt, og þarf því ekki að fara frekar út í þetta efni.

Það er kunnugt, að eins og stendur er markaður íslenskrar síldar mjög takmarkaður, og er því nauðsynlegt, vegna verðsins, að framleiða ekki meira en markaður er fyrir, til þess að geta haldið verðinu uppi. En brtt. nefndarinnar fara í gagnstæða átt, þar sem þær hvetja til veiða, nema ef sett væru almenn lög um takmörkun síldveiða, sem trygðu það, að menn gætu verið hjer um bil vissir um bærilegan markað.

Það er líka hætt við, ef brtt. nefndarinnar verða samþ., að djúpt skarð verði höggvið í tekjur yfirstandandi árs, og hjelt jeg, að við mættum síst við því, eins og sakir standa nú. Jeg sje því ekki, að brtt. sjeu til bóta, og óska, að þær verði feldar og frv. samþ. óbreytt.

Um það, sem háttv. frsm. (Sv. Ó.) hjelt fram, að varhugavert væri um þennan toll, að því leyti, að hætt væri við óánægju útlendinga þeirra, er búsettir eru hjer á landi, þá gæti það vel komið fyrir, en það er ekki vert að ræða um það hjer í heyranda hljóði, heldur mun betra að athuga þetta milli umræðanna.

Jeg vil taka það fram, að jeg skil brtt. nefndarinnar þannig, að hinn lögskipaði miðlari við sölu síldarinnar erlendis gefi aðeins vottorð um söluverðið, en hann getur ekki sagt um, hvort hún hefir selst undir kostnaðarverði.