25.04.1921
Neðri deild: 51. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

10. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Jón Auðunn Jónsson:

Það er út af því, sem hæstv. fjrh. (M. G.) hefir fundið brtt. fjhn. til foráttu, að jeg stend upp. Hann sagði, að ekki væri neitt til að miða við, þegar endurgreiða ætti. En fjhn. var einhuga um það, að hæstv. stjórn væri í lófa lagið að finna út meðalverð síldar. Hún gengur út frá því, að stjórnin láti Hagstofuna reikna út meðalverð á síldartunnu, áður en síldveiði byrjar. Þetta er mjög hægt, þar sem sama verð er á tunnum og salti, og það, sem gefið er fyrir verkunina, og verkunin er eins um alt land. Og það er altaf búið að selja eitthvað af nýrri síld og semja um verðið fyrirfram. En hækki verðið eftir á, þá bara borga menn því hærri toll.

Annars þótti mjer leitt að heyra ummæli hæstv. fjrh. (M. G.); mjer virtist hann vera á þeirri skoðun, að mistök á síldarsölu hafi stafað af peningahraki þeirra, er seldu. Þetta er alls ekki rjett. Mjer er vel kunnugt um það, að á Ísafirði var alt það selt, er tilboð fjekst í. Að ekki seldist meira, kom til af því, að markaður var alls enginn. Ef menn hefðu vitað það fyrirfram, þá hefði verið reynt að selja hana fyrir lægra verð, en allir þóttust vissir um það, að markaður mundi opnast í Þýskalandi og víðar. En svo kom markaður í Svíþjóð, og hann gat aðeins tekið á móti 120–130 þús. tunnum. Þess vegna sátu þeir uppi með sína síld, sem ekki voru þegar búnir að selja. Líka er þetta augljóst af því, að þegar síldin var komin út og boðin fyrir 50–60 aura, þá var hún ekki keypt, og sýnir það, að enginu markaður var þar. En það er ekki til neins að bjóða vörur fyrir lítið verð, þegar engin þörf er fyrir vörurnar. Þjóðverjar og Rússar þurftu að vísu að kaupa, en öll aðstaða þeirra varnaði þeim kaupanna. Þær ásakanir, að það sje mönnunum sjálfum að kenna, að síldin seldist ekki, eru af ókunnugleika gerðar.

Jeg veit ekki hvernig hæstv. fjrh. (M. G.) dettur í hug, að í skattafrv. megi setja ákvæði um takmarkanir síldveiða innlendra manna. Jeg vænti þess, að hjer sjeu á ferðinni lög um síldveiðar, og þar eiga slíkar takmarkanir heima.

Margir hafa á það minst, að síldveiðin hafi dregið vinnukraft frá öðrum atvinnugreinum. Það er rjett, að á árunum 1914 –1917 dró hún fleiri að sjer en heilbrigt var. En það er hægra að sjá eftir á en fyrirfram. Ef mönnum hefði dottið slíkur skaði í hug, þá hefði því verið varnað í tíma. En mjer er kunnugt um það, að á Ísafirði hefir útgerðin ekki dregið vininukraft frá öðrum atvinnugreinum, því að þar er verkunin unnin af þeim konum, sem ekki hafa að öðru að hverfa þennan stutta tíma ársins, sem síldveiði er stunduð. Og jeg veit, að það eru ekki nema örfáir tugir, nái það þá einum tug, sem stunda þessa atvinnugrein á Ísafirði, sem ella hefðu stundað annað. Svo er líka á Akureyri, eftir því, sem sagt er, og það má líka á það líta, að það er ekki lítil vinna, sem hjer er borguð, og sem ekki fengist, ef þessi atvinnugrein væri ekki stunduð. Útlitið er nú svo, að lítið muni seljast á þessu ári, og svo var einnig í fyrra. Þá var lítið lagt í kostnað, Vestfjarðaveiðin mjög takmörkuð, og þó var stórtap á öllu saman. En eigi að leggja þennan atvinuuveg niður, þá vil jeg biðja menn að íhuga vandlega orð háttv. þm. Ak. (M. K.). Jeg get ekki fært betri ástæður, fyrir því, hvernig þá fer, en hann, og fjölyrði því ekki frekar um það.

Hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, að hann sæi ekki eftir þeim mönnum að borga toll, sem lægju með síldina, er þeim bærust góð tilboð. Hjer er hlaupið eftir sögusögn annara. Jeg veit engin dæmi til þess, að menn hafi ekki viljað selja síld fyrir gott verð. En 60 aurar gátu þó ekki talist gott verð, síst þegar menn þá væntu þess, að markaður mundi opnast í Þýskalandi. Og það er mjög misráðið, ef stofnað væri til þess, að þessum atvinnuvegi væri hætt, því fremur sem nú er svo komið, að þorskveiðar borga sig svo illa á Vesturlandi, að menn eru margir alveg hættir að stunda þær og teknir að stunda síldveiðar, og sá atvinnuvegur mun verða okkur til blessunar í framtíðinni, jafnskjótt og betra skipulagi verður á hann komið.