06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

3. mál, fasteignaskattur

Pjetur Ottesen:

Jeg get alveg slept því að fara að ræða um einstakar greinar þessa frv. eða brtt. nefndarinnar, að öðru leyti en því, sem jeg geri í sambandi við brtt. okkar á þskj. 214.

Frv. þetta er alveg nýmæli, að öðru leyti en því, að tekinn hefir verið skattur af húsum í kauptúnum og kaupstöðum.

Jeg get fyrir mitt leyti verið því samþykkur, að sú leið, að skattskylda fasteignir, sje reynd, þótt jeg hins vegar sje smeykur um það, að fasteignir hjer á landi geti tæplega borið aðalskattabyrðina í nánustu framtíð, eins og virðist hafa vakað fyrir sumum mönnum. Og þótt það sje óneitanlega mikill munur fyrir skattgreiðanda að greiða skatt af fasteign, sem hann á skuldlitla eða skuldlausa, eða þeirri, sem öll er keypt í skuld, þá er það ljóst, að grundvellinum er að miklu leyti kipt undan þessum skattstofni, ef skatturinn væri ekki látinn ná til allra fasteigna, án sundurgreiningar á þessu.

Aftur á móti er það mikill kostur við fasteignaskattinn, að ekkert breytist til muna. nema á 10 ára fresti, þegar nýtt fasteignamat fer fram.

Annars er það einkum till. okkar á þskj. 214, sem jeg vildi fara nokkrum orðum um. Mönnum hefir æ betur og betur orðið það ljóst, þegar í framkvæmd á að ráðast, hversu tilfinnanlegt það er, að bæjar- og sýslusjóði vantar fasta tekjustofna. Útgjöld þeirra hafa vaxið hröðum fetum, bæði við það, að menn eru nú orðnir djarfari til framkvæmda, og svo við hitt, að allar framkvæmdir eru nú orðnar miklu dýrari en áður. Mjer er kunnugt um það, að sum hreppsfjelög hafa ekki treyst sjer til að jafna niður sýslusjóðsgjöldum með öðrum þörfum á gjaldendur hreppanna, og hafa orðið að grípa til þess óyndisúrræðis að taka lán til að standast þennan kostnað. Og sama má víst fullyrða um ýms bæjarfjelög. En þessi aðferð getur ekki gengið til frambúðar, að stofna til skuldar á þennan hátt. Till. okkar er því aðallega fram komin til þess að brjóta ísinn á þessu sviði, og það virðist því fremur, að þessi leið sje farin, þar sem þessi skattur er einmitt mjög vel til þess fallinn að skifta honum milli ríkissjóðs og sýslu- og bæjarfjelaga.

Eins og jeg gat um áðan, þá er ekki mikið á reiki um upphæð skattsins, og má því segja, að á vísan sje að róa.

Það er auðvitað alveg rjett, að sýslu- og bæjarfjelögin muni ekki mikið um þá upphæð, sem þeim er ætluð, en það má segja, að mjór er mikils vísir, og með því er grundvöllurinn lagður, og þann grundvöll er nauðsynlegt að leggja, og það þegar á þessu þingi.

Meining okkar flm. er að sjálfsögðu sú, að skatturinn verði eins hár og stjórnin leggur til, sem sje 3A af lóðum og lendum, en 2‰ af húsum. Við lítum svo á, að till. fjhn. um lækkun skattsins mundi einmitt eiga rót sína að rekja til þess, að þeim þætti varhugavert að leggja svo hátt skattgjald á fasteignir til ríkissjóðs einvörðungu, og ef þetta væri nú svo, þá gat þetta af okkar hálfu verið tilraun til að mæta háttv. nefndarmönnum á miðri leið.

Auk þess má á það benda, að það er einmitt mjög hagkvæmt fyrirkomulag, að geta notað eina og sömu innheimtuna á skattinum fyrir þá aðila, er skattsins njóta. Það er miklu hagkvæmara og praktiskara en að leggja skattinn á í tvennu lagi, og innheimta hann svo í tvennu lagi.

Eins og jeg tók áður fram, þá er þetta af hendi okkar fhn. tilraun til að brjóta ísinn og koma skriði á það, að farið verði að sjá sýslu- og bæjarsjóðum fyrir nýjum tekjustofnum. Þó bundum við þetta ákvæði aðeins við árið 1922. Og við gerðum það með það fyrir augum, að við leggjum áherslu á það, að ekki verði látið síga úr hömlu að undirbúa og leggja fyrir næsta þing frv. til laga um þetta efni, og yrði þá úr því skorið, hvort þessu ákvæði yrði haldið áfram í lögum, sem jeg tel vafalaust að verði, eða aðrar leiðir farnar. Rjett væri einnig, að eitthvað ofurlítið af tekju- og eignarskattinum rynni einnig til sýslu- og bæjarfjelaga. Jeg vil skjóta því til hv. nefndar, sem hefir mál það til meðferðar. Ofurlítil úrlausn er þetta á málinu, og með því er þó kominn skriður á málið, og það er hægra að styðja en reisa.

Mjer þykir leitt, að háttv. fjhn. skuli ekki hafa getað orðið okkur sammála, og að tilraunir okkar að mæta nefndinni á miðri leið skyldu ekki takast.

Háttv. frsm. (M. K.) kannaðist við þörf á breytingum í þessa átt, en vildi gera lítið úr þeim örðugleikum, sem á því eru að jafna niður gjöldum með núverandi fyrirkomulagi. Eins og nú er, eru sýslusjóðsgjöldin jöfnuð niður á hreppana, eftir tölu verkfærra manna, en að nokkru eftir lausafjártíundinni. Nú fellur lausafjártíundin niður, ef þetta frv. verður að lögum, og þar með er að nokkru leyti kippt í burtu þeim grundvelli, sem niðurjöfnun gjaldsins hefir hvílt á. Það verður eitthvað að koma í staðinn, og er mikið, að stjórnin skuli ekki hafa hugsað fyrir því.

Jeg gat þess, að við vildum, að skatthæð sú, er stjórnin lagði til, hjeldi sjer, og þess vegna vildi jeg skjóta því til forseta, að viðaukatill. okkar yrði borin undir atkv. á undan brtt. nefndarinnar, um það að færa skattinn niður. Jeg geri ráð fyrir, að fleiri en við flm. sjeu á því, að verði hún samþ., þá eigi skatturinn eins og hann er í frv. stjórnarinnar að halda sjer.