06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

3. mál, fasteignaskattur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg skal fúslega viðurkenna, að það hefði verið æskilegt, að sveitaskattarnir hefðu orðið samferða ríkissjóðssköttunum. En það vanst nú eigi tími til að koma fram með sveitaskattafrv., og svo tel jeg líka vafasamt, að tími hefði unnist til á einu þingi að afgreiða þau öll. Og enn er það, að þál. frá 1919 hnje aðeins að ríkissjóðssköttunum. Auk þess mun það frekar hníga undir hæstv. atvinnumálaráðherra heldur en mig að bera fram sveitaskattafrv.

Um 9. gr. frv. skal jeg geta þess, að mjer er hún ekkert sjerstakt keppikefli. Jeg tók hana upp eftir sams konar ákvæðum erlendis, og þar er þetta ákvæði sett, til þess að vekja menn til athugunar á því, að nú sje verið að leggja á háa skatta, og hvort ekki sje hægt að komast hjá því. Skal jeg játa það, að mjer sýnist nú þetta „Ræsonnement“ dálítið hæpið, en sje hins vegar eigi, að ákvæðið sje á nokkurn hátt til skemda.

Það er rjett hjá háttv. 3. þm Reykv. (J. Þ.), að skatturinn myndi lenda á leigjendum í sveitum, en eigendum í kaupstöðum; en að þetta er svo, stafar frá breytingum háttv. nefndar, en var ekki svo eftir stjórnarfrv. Er þetta auðvitað athugavert.

Jeg verð að játa það, að jeg skildi eigi vel, hvað háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) var að fara, er hann mintist á 9. gr. frv. En það, sem felst í ákvæðinn, er þetta, að komast hjá því að þurfa að breyta fasteignaskattslögunum sjálfum, þó að einhverjar breytingar yrðu gerðar á skatthæðinni, með því einungis að heimila þetta með ákvæði í fjárlögunum, en með brtt. nefndarinnar er þetta gert erfiðara.