11.04.1921
Efri deild: 40. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (1077)

3. mál, fasteignaskattur

Sigurður Jónsson:

Mjer virtist hæstv. fjrh. (M. G.) telja það hlutverk yfirmatsnefndarinnar að koma með breytingar á gildandi fasteignamatslögum. Nefndin leit ekki svo á. Aftur mun hún á sínum tíma koma með till. um breytingar á aðferð og undirbúningi næsta mats. En á því lá ekki nú, en nefndin mun fljótlega senda stjórninni álit sitt og tillögur í því efni, um leið og nefndin gerir grein fyrir störfum sínum að öðru leyti. Úr því, sem komið er, verður að byggja á matinu eins og það kemur nú fullbúið frá nefndinni, og þótt því sje að ýmsu ábótavant, þá verða menn að gæta þess, að öll nýsmíð stendur til bóta. Nú eru ekki nema 8 ár til næsta mats, og skatturinn ekki sjerlega hár, svo að ekki virðist mikið í hættu. Annars virðist mjer nú matið yfirleitt það lægsta, sem hægt var að fara. Jeg sje ekki, hvers vegna ætti að ganga á snið við þá tekjustofna, sem eru fastir og vissir. Og það verður hlutverk þeirrar nefndar, sem fær þetta frv. til athugunar, að samræma það við fasteignamatslögin.

Að lokum ætla jeg að geta þess, að yfirmatsnefndin hefir veitt því eftirtekt, að víðast hvar hafa menn lítt tekið tillit til hinnar snöggu verðhækkunar stríðsáranna, eins og líka verður að telja rjett. Sömu reglu hefir yfirmatsnefndin fylgt. Enn verður ekkert um það sagt, hvort sú hækkun verður varanleg. Yfirleitt er þetta fyrsta mat meira svo sem tilraun og grundvöllur til næsta mats.