11.04.1921
Efri deild: 40. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

3. mál, fasteignaskattur

Sigurður Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð, sem jeg vildi bæta hjer við viðvíkjandi orðum hv. 1. þm. Húnv. (G. O.). Hann taldi það lítið samræmi hjá nefndinni að viðurkenna, að grundvöllur gildandi fasteignamatslaga væri skakkur, en vilja þó hækka skattinn, sem væri bygður í þessum grundvelli. En fasteignamatsnefndin hefir lagt skýrslur sínar um matið svo til hæfis, að lítils er um vert að fylla þær út eftir þessu frv., sem hjer liggur fyrir. Það má vera, að sumum reynist skatturinn tilfinnanlegur í bili, og um það geta orðið skiftar skoðanir, hvort mat okkar geti staðist til langframa, en jeg vona samt, að landið eigi þá framtíð fyrir höndum, að mat okkar reynist ekki of hátt, og að ekki þurfi að lækka það neitt til muna við næsta mat.

Eins og háttv. fjrh. (M. G.) tók fram, þá bað hann nefndina að haga skýrslum sínum svo, að að gagni kæmu, þótt frv. stjórnarinnar yrði samþykt. Þetta hefir nefndin gert, eins og jeg þegar hefi tekið fram. Hún hefir skilið eftir auðan dálk aftast á skýrsluforminu, þar sem alt mætti setja í eitt úr fremri dálkunum, eða þá það að eins, sem gjaldskylt verður talið, þá er þingið hefir gengið til fulls frá þessu frv.