11.04.1921
Efri deild: 40. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

3. mál, fasteignaskattur

Guðjón Guðlaugsson:

Það eru aðeins örfá orð viðvíkjandi því, sem hæstv. fjrh. (M. G.) tók fram um fasteignaskattinn. Jeg býst við, að það hafi verið meining háttv. stjórnar með þessu frv., að fá auknar tekjur ríkissjóðs. En þar held jeg að henni skjátlist. Jeg sje ekki betur en að frv. verði þvert á móti til þess að rýra tekjur ríkissjóðs. Fyrst og fremst með því að svifta burt lausafjárskatti af landbúnaði, sem nemur alt að 100 þúsund krónum og jeg tel rjettast að halda. Og í öðru lagi er fasteignaskatturinn sjálfur lægri eftir frv. stjórnarinnar en eftir fasteignamatslögunum. Jeg hlýt því að óska hæstv. fjrh. (M. G.) til hamingju, og öðrum, sem auka vilja sjálfstæði landsins í peningasökum, ef þetta frv., með þeim breytingum, sem samfara verða, verður ríkissjóði að fjeþúfu, og er jeg þá neyddur til að vænta, að þeim fari fleira vel úr hendi í þeim efnum.