02.05.1921
Efri deild: 60. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

3. mál, fasteignaskattur

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Jeg fór svo ítarlega út í þetta mál við 1. umr., að Jeg get sparað mjer að vera langorður nú. — Jeg ætla aðeins að gera stutta grein fyrir skoðunum nefndarinnar á þessu máli, en vísa að öðru leyti til nál. um þau atriði, sem jeg ekki tek hjer fram.

Það, sem nefndin þurfti fyrst að leggja niður fyrir sjer, var það, á hverju skyldi byrja, því að síðan varð að byggja hitt á þeirri undirstöðu, sem þar yrði lögð.

Í þetta frv., sem er á þskj. 254, hefir verið sett inn af háttv. Nd. eitt þýðingarmikið ákvæði, sem er nú 10. gr. frv. Þetta ákvæði er það, að af þeim fasteignaskatti, sem greiddur verður á næsta ári, skuli 1/3 partur renna í sýslu- eða bæjarsjóð hvers lögsagnarumdæmis.

Jeg var því hlyntur við 1. umr., að þetta væri gert, og þessum sjóðum með því fenginn fastur gjaldstofn. — En þegar jeg tók að athuga málið nánar, þá sá jeg brátt, að ýmislegt var að athuga við þetta.

Nefndin leit svo á, að ríkissjóður þyrfti þó að fá eins miklar tekjur af þessum skatti eins og hann fær eftir gildandi lögum. Og þegar hún fór að rannsaka þetta nákvæmar, þá sá hún, að það yrði ekki einasta að hækka skattinn frá því, sem hann er í frv., sem hjer liggur fyrir, heldur hækka hann frá því, er stjórnarfrv. ákveður, þar sem það geti ekki talist vera nógu hátt. Eftir stjórnarfrv. er skatturinn áætlaður 240000 kr., og ef svo frá því yrði dreginn partur, sem rynni í sýslu- og bæjarsjóði, þá er auðsjáanlegt, að ríkissjóður sæti mjög á hakanum. Það er því auðsætt, að ef halda ætti þessum tekjum ríkissjóðs í sama farinu, og draga þó 1/3 hluta frá til sýslu- og bæjarsjóða, þá yrði að hækka skattinn allmikið frá því, sem nú er, en jeg er í talsverðum vafa um, að það myndi ganga í gegn, þótt tilraun væri gerð.

Þá sá nefndin við nánari athugun málsins, að þennan skatt til sýslu- og bæjarsjóða ber rjettilega að taka af fleiri gjaldstofnum. Er yfirleitt óþægilegt að leita þessum sjóðum tekna, nema allir gjaldstofnar, sem þar geta komið til greina, sjeu skoðaðir í heild, og svo tekið af hverjum um sig það, sem rjett þykir.

Nefndin leggur því til, að 10. gr. frv. sje feld niður að svo stöddu máli, því að hún sá sjer ekki fært annað en fyrst og fremst að binda sig við það að rýra ekki tekjur ríkissjóðsins, sem síst munu of miklar.

Annars gerði nefndin ýmsar tilraunir með þetta. Hún sá, að ef sýslu- og bæjarsjóðir ættu að vera með, þá mættu tekjurnar af frv. ekki vera lægri en 350 þús. kr., en það væri svo mikil hækkun frá því, sem nú er, að vafasamt er, að það hefðist fram.

Þá taldist nefndinni, að ef sýslu- og bæjarsjóðum væri slept, þá þyrfti ríkissjóður að fá inn með skatti þessum 250–260 þús. kr., og lá þá næst fyrir að athuga það, hvernig þeirri upphæð yrði best náð, Gerði nefndin ýmsar tilraunir þar að lútandi. Var ein sú, að leggja 31/2 af þúsundi á lönd og lóðir og á öll hús 2 af þúsundi, og myndi sú upphæð nást með þessu lagi. Ýmsar fleiri tilraunir gerði nefndin og fjelst svo að lokum á þá síðustu, og er gerð grein fyrir henni í nál. Einn nefndarmanna vildi hafa gjaldið af löndum og lóðum 5‰, og annar, að öll hús væru með sama skatti, hvort sem þau væru í kaupstað eða sveit. — Niðurstaðan varð þá sú, að nefndarmenn komu sjer saman um, að gjaldið skyldi vera:

Af löndum og lóðum 4‰

— húsum í kaupstöðum 2‰

— öllum öðrum húsum 11/2‰

— og stendur annars bæði þetta og greinargerð þar að lútandi í nál.

Þá er komið að því atriði, er snerti sambandið á milli frv. þessa og fasteignamatslaganna. Því verður ekki neitað, að það er náið samband þar á milli, ekki einasta að því er snertir matið, heldur líka skattinn sjálfan, í fasteignamatslögunum eru, eins og kunnugt er, öll hús leiguliða undanskilin skatti. Á þessu var í frv. gerð gagngerð breyting og jafn skattur lagður á öll hús. Þetta þótti nefndinni heldur geist farið, og hefir komið þar fram með þær miðlunartill., sem nál. ber með sjer og jeg gat um áðan.

Hvað jarðabæturnar snertir, þá áleit nefndin ekki rjett að fara að kippa þeim inn aftur, því að slíkt yrði bara til að koma þar á ósamræmi á ný.

— Jeg hefi annars rekið mig á það, að fasteignamatslögin eru í flestum greinum ómöguleg. Hafa auk þess orðið ýmsar breytingar á síðan, sem gera nauðsynlegt að breyta þeim ákvæðum, sem þar að lúta. Eins og jeg hefi minst á áður, voru hús leiguliða undanskilin skatti í þessum lögum, en þetta kemur víða illa við nú, þar sem þar hafa síðan orðið á miklar breytingar, og margir, sem voru leiguliðar, þegar fasteignamatslögin gengu í gildi, eru nú orðnir fasteignabændur og „vice versa”.

Það er að vísu ekki hægt að neita því, að sjálfsagt sje rjettmætt að gera mun á húsum leiguliða og fasteignabænda. En hinsvegar ber þess að gæta, að ef bygt er með ráðdeild og vel um alt búið, þá eru húsin í rauninni jafnverðmat sem þjóðareign, hvort sem þau eru eign bóndans eða eigi. Þar af leiðir, að ef rjett er að leggja skatt á hús sjálfseignarbænda, þá er og rjett að leggja nokkurn skatt á hús leiguliða. — Þá sje jeg ekki ástæðu til að taka fremur skatt af húsum þurrabúðarmanna í smásjávarþorpum en leiguliðum í sveit, og verð jeg að telja þann mun, sem þar hefir verið gerður á, bygðan á misskilningi.

Nefndin vildi yfirleitt ekki binda sig við fasteignamatslögin, en reyndi að synda á milli skers og báru eins og frekast var unt. Hún ákvað, að rjett væri að skattleggja öll hús, en gerði þó nokkurn mismun á húsum leiguliða og fasteignabænda, eins og sjá má af nál. Er 11/2‰ ekki hærri skattur en svo, að ekki virðist ástæða fyrir leiguliða til umkvörtunar fyrir það.

Að þessari niðurstöðu hefir þá nefndin komist. Jeg gæti auðvitað tekið margt fleira fram viðvíkjandi þessu, ef nægur væri tími, en álít þess varla þörf. Jeg skal játa, að varla getur skoðast ástæða til að undanskilja skattinum jarðabætur síðustu 10 ára, því að auðvitað er, að jarðabætur eru ekki óarðvænni eign en t. d. hús. En með því, að svo hefir verið ákveðið í fasteignamatslögunum, sem það er, þá þótti nefndinni varla hægt að rifta því, og rjúfa með því samræmi það, sem þar er fyrir, því að með því hlyti þeim grundvelli að verða hreyft, sem alt þetta er bygt á.

Jeg hefi til gamans tekið hjer 3 jarðir til samanburðar. Ein er 40 hundraða jörð, sem er virt á 4000 kr. og skattskyld hús á 2000 kr. Sá bóndi, sem þar býr, verður að borga í skatt:

Eftir fasteignamatslögunum . . kr. 24.00

— þessu frv — 31.95

— stjórnarfrv — 39.00

Nd.-frv. — 30.75

Önnur jörðin er:

Eftir fasteignamatslögunum..... .. kr. 34.00

— þessu frv — 32.90

— frv. stjórnarinnar .. .. — 28.40

Nd.-frv — 24.40

Þriðja jörðin:

Eftir fasteignamatslögunum .. —Kr. 34.00

— þessu frv .... — 24.00

— frv. stjórnarinnar ............. — 39.00

Nd.-frv. ................................ — 32.50

Þarna sjer maður, að tveir af mönnunum græða dálítið við það, að fasteignamatslögin eru ekki talin gilda, en sá fyrsti þarf að borga dálítið meira.

Yfirleitt er það svo, að sveitabændur skaðast ekki, þótt gjaldið af lendum og lóðum sje haft 4‰ Fyrir þá er það ekki of hátt. Dálítið annað er það með lóðareigendur. Jeg vildi ekki fara að breyta þeirri reglu, sem stjórnin hefir tekið, að hafa lendur og lóðir í sama númeri, þótt jeg sje í vafa um, hvort það er fyllilega rjettlátt. Mín skoðun er, að lóðum sje fullmikið boðið með þessu 4‰ gjaldi. Jeg hefi kynt mjer matið í Reykjavík, og virðist það mjög skynsamlegt og sanngjarnt.

En niðurstaðan verður sú, að þessi breyting, sem nefndin vill láta gera, hækkar fasteignaskattinn hjá mjer um 10 kr. Hann verður 60 kr., en 30 kr. er hann hjá stærsta bónda á Suðurlandsundirlendinu. Og hann er aðeins hálfdrættingur á við mig. En við þessu er ekkert hægt að gera, og lóðir eru líka arðberandi; hús á góðum lóðum eru leigð með mjög háu verði.

Við förum fram á, að 9. gr. verði feld niður. Það er sams konar grein og feld var niður hjer í deildinni í frv. um lestagjald af skipum. Í henni er ákvæði um, að heimilt sje með ákvæði í fjárlögum að hækka eða lækka fasteignaskattinn fyrir 1 ár í senn. Ástæðan fyrir, að nefndin vill fella þetta niður, er sú, að hugsanlegt er, að það verði misbrúkað, ef hægt er að breyta skattinum með svo hægu móti.

Væri gott, ef deildin gæti aðhylst brtt. nefndarinnar. Og jeg vona, að öllum deildarmönnum sje ljóst, að ekki dugir að færa skattinn niður. Engum dettur í hug að koma fram með frv., sem rýri tekjur ríkissjóðs. en mörg frv. hafa komið fram, sem fara í þá átt að auka þær, og því vona jeg, að deildin láti þetta frv. þannig frá sjer fara, að það gefi ekki af sjer minni tekjur en samkvæmt tillögum nefndarinnar. Hitt gæti komið til mála, að koma með brtt. til 3. umr., þar sem skatturinn væri eitthvað færður til, en aðalupphæðin hjeldist þó hin sama.

Á eitt atriði vil jeg minnast, sem raunar kemur fremur við fasteignamatslögunum en þessum. Einn af göllum þeirra laga er sá, að þar sem talað er um endurmat, er þess alls ekki getið, að ný hús skuli metin. Bóndi getur heimtað nýtt mat, þegar jörð hans skemmist til muna, ef t. d. skriða fellur á hana. Stjórnin getur heimtað endurmat, þegar jarðir batna, sökum járnbrautarlagninga eða akbrautar, svo og ef ný kauptún rísa upp. En hvergi er talað um mat á nýjum húsum; það virðist hafa gleymst. Held jeg, að rjett væri að taka upp í lögin sjerstakt ákvæði um, að ný hús í kaupstöðum skuli metin, jafnóðum og þau byggjast, því að ef þau væru ekki metin fyr en næsta alment mat, eftir að bygging þeirra fer fram, gæti það orðið tekjumissir fyrir ríkið. Það væri t. d. hart að láta Eimskipafjelagshúsið og Sambandshúsið vera skattfrjáls í mörg ár, eða til næsta almenns fasteignamats.

Þá mun jeg ekki segja meira að þessu sinni, en reiðubúinn er jeg til svara, ef einhver kynni að gera athugasemdir.