02.05.1921
Efri deild: 60. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (1088)

3. mál, fasteignaskattur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg get þakkað háttv. nefnd fyrir meðferð hennar á frv. Skilur ekki mikið frv. stjórnarinnar og tillögur nefndarinnar, því að þótt hún hafi fært gjaldið af jörðum og lóðum upp í 4‰, þá er það að athuga, að umbætur síðustu 10 ára skulu dregnar frá skatti, en svo var ekki í stjórnarfrv., og gjaldið af húsum í sveitum er lækkað um 1/2‰. Brtt. eru ekki svo fjarri stjórnarfrv., að það taki því að tala mikið um þær. Hitt játa jeg, að jeg sje ekki, að brtt. sjeu til bóta. Jeg get viðurkent, að rjett sje að sleppa 10 ára umbótum næstu 10 ár. úr því að upplýst er af yfirfasteignamatsmönnum þeim, sem hjer eiga sæti í þessari háttv. deild, að það mundi valda ósamræmi að taka þær með. En mjer fyndist ætti að standa í breytingartill., að þetta ákvæði gilti aðeins meðan þetta mat er í gildi.

Jeg get gengið inn á lækkun á húsum í sveit, svo framarlega sem nefndin álítur, að hús þar sjeu hærra metin en hús í kaupstöðum og kauptúnum, miðað við hvað líklegt er að þau seldust, en annars alls ekki. Því að ef alt er metið eftir þessum mælikvarða, eiga öll hús að vera með sama skatti.

Jeg skil ekki setninguna „sem er einstakra manna eign“ í brtt. nefndarinnar við 2. gr. Jeg held að hún sje óþörf og geri ekki annað en villa, því að annarsstaðar (í 3. gr.) er tekið fram, hver hús eru undanskilin skatti, og þau hús, sem ekki eru talin þar upp, eru skattskyld. Jeg held að þessa setningu ætti að fella burtu fyrir 3. umr.

Viðvíkjandi því, að skatturinn sje lægri eftir stjórnarfrv. en gildandi fasteignamatslögum, þá hygg jeg að svo sje ekki. Mjer skilst, að eftir fasteignamatslögunum hafi átt að draga frá skattskyldu verði húsanna allar veðskuldir. Ef svo er, þá er skatturinn eftir stjórnarfrv. sem næst jafnhár, eins og ef engu hefði verið breytt.

Jeg er fullkomlega samþykkur því, er háttv. frsm. (G. G.) sagði um húsin. Langt er síðan jeg hefi sjeð, að engin meining er í þessum mun á skattfrjálsum og skattskyldum húsum í sveit.

Það er rjett, að fasteignamatslögunum þarf að breyta. Jeg hefi altaf haldið, að það þyrfti að gerast á þessu þingi, en það getur nú ekki komið til mála hjeðan af. Jeg hafði búist við áliti um málið frá fast eignamatsnefnd, en það hefir ekki komið. —

Jeg hefi tekið eftir því, sem háttv. frsm. (G. G.) var að tala um, að hvergi er beint tekið fram í fasteignamatslögunum, að ný hús skuli metin, en þó held jeg að hægt sje að fá þau metin samkvæmt þeim. En mat á nýjum húsum samkvæmt þeim verður dýrt, og getur verið óþægilegt í framkvæmdinni. Matsmennirnir geta t. d. búið hvor á sínum sýsluenda. Þess vegna vil jeg spyrja nefndina, hvort hún vildi ekki koma inn í frv. fyrir 3. umr. ákvæði um, að úttektarmenn í sveitum meti ný hús þar, en þar sem þeir eru ekki til, skipaði stjórnarráðið 2 menn til að hafa þetta starf með höndum. Á þennan hátt yrði matið ódýrara. Auðvitað yrði það ekki jafntrygt með þessu móti, en þó ætti það aldrei að þurfa að verða að skaða, þar sem mat þeirra mundi ekki standa nema í nokkur ár, í hæsta lagi 8.

Háttvirtur 1. landskjörinn varaþingmaður (S. F.) sagði, að frv. sigldi undir fölsku flaggi með þessari fyrirsögn, sem það nú hefir, þar sem skatturinn greiðist að sumu leyti af leiguliðum. Þetta finst mjer ekki rjett, því að fyrirsögnin segir ekkert um, af hverjum skatturinn skuli greiddur. Annars vil jeg taka það fram, að sú breyting, sem veldur óánægju háttv. 1. landsk. varaþm. (S. F.), er sett inn í hv. Nd., svo að jeg hefi ekki beina ástæðu til að verja hana, en vil samt ráða frá að breyta skattgreiðsluákvæðinu aftur í þessari hv. deild, vegna þess, að breyting sú, er hjer um ræðir, var samþ. í Nd. með miklum meiri hluta. Breyting hjer mundi því valda hrakningi milli deilda.