02.05.1921
Efri deild: 60. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

3. mál, fasteignaskattur

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Það er ekki mikið, sem jeg þarf að svara. Það er ekki margt, sem andmælt hefir verið, en einungis bent á nokkur atriði, sem nefndin mun athuga og taka til greina, ef þörf þykir. Jeg hefi athugað aths. háttv. 1. landsk. varaþm. (S. F.), um að frv. beri ekki rjett nafn. Jeg er honum þar sammála, að það er ekki sama afnotaskattur og fasteignaskattur. Sjerstaklega þar sem sú breyting hefir verið gerð á frv., að skatturinn skuli greiðast af leiguliðum. Jarðir eru nú leigðar með byggingarbrjefi, og í því er tekið fram, að skattur skuli greiddur. Annars eru lóðagjöldin mjög misjöfn. Einkanlega eru þau það, þar sem lóðir voru fyrst teknar í kaupstöðum fyrir lágt verð, og menn voru því fegnir. ef þeir gátu leigt aftur út lóð og lóð, og þær hækkuðu í verði, eftir því sem á leið og meira bygðist. Sumstaðar eru því allar lóðirnar í kaupstöðum metnar með jörðinni. Jeg hefi átt heima á Hólmavík. Sjálf jörðin var seld, en eigandinn gætti þess að halda eftir tanganum með öllum lóðunum. Jeg leit svo á, að það væri eigandinn, sem borga ætti skattinn, en ekki leigjandinn.

Háttv. 1. þm. Húnv. (G. Ó.) fanst skatturinn vera of hár. Hann vildi ekki hafa það fyrir mælikvarða, hve mikið ríkissjóður þyrfti. Til hvers er þá verið að hækka vörutoll? Er það ekki vegna þess, að við vitum, að ríkissjóður þarfnast þess? Það verður að haga þessu þannig, að ríkissjóður fái ekki minna en áður. Jeg held því fram, að ef lóðaskatturinn yrði reiknaður eftir því, sem stjórnin stakk upp á, 3‰, en ekki 4‰, eins og nefndin vill, þá muni tekjur ríkisins minka. Hann sagði, að matið væri slæmt. Það er alveg rjett; matið er alt annað en gott, enda þótt nefndin hafi kappkostað að gera matið sem allra rjettlátast. En hitt er víst, að það er ekki of hátt. Ef skakki er, þá er hann sá, að það sje of lágt, og það er óhætt þess vegna að hafa það 4‰, í stað 3‰. Enda sjest það ljóslega af dæminu, sem jeg tók áðan, að það skuli ekki þurfa að borga nema 29 kr. af 60 hundr. jörð með húsum og öðru, sem jörðinni tilheyrir. Jörð upp á 6000 kr. og hús fyrir 3000 kr. skuli eiga einungis að greiða tæpar 30 kr. í skatt, það sjá allir, að ekki er sjerlega hátt. Þá mintist hann á lausafjárskatt. Jeg hafði nú gleymt að tala um hann við framsöguna. Það er rjett, að það á ekki að blanda inn í þetta lausafjárskatti, sem tekjuskatti, en jeg vil þó aðeins benda á, að lausafjárskattur er nú tekjuskattur. Ef þm. (G. Ó.) hefir setið í skattanefnd í sveit — jeg veit ekki hvort hann hefir gert það —, þá þekkir hann eflaust vel, að ekki er gott að leggja skatt á menn, sem ekki hafa neinar fastar tekjur, og er erfitt að meta það, þar eð maður hefir ekki eftir neinu ákveðnu að fara. Hins vegar er það auðvelt að leggja skatta á menn, ef menn vita hve mikinn arð þeir hafa í aðra hönd. Jeg skal taka dæmi. Það er prestur, sem hefir 1700 kr. árslaun, en hefir fyrir 10 börnum að sjá. Hann þarf að borga skatt. Jeg tek 1700 kr. laun, þar eð í launalögunum voru laun presta 13–1700 kr. á ári. En annar einhleypur bóndi, sem engar fastar tekjur hefir, þarf sjaldan að borga nema lítinn sem engan skatt.