11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

3. mál, fasteignaskattur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Þetta er rjett að sumu leyti hjá hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ. ). En jeg verð að biðja hv. deild að muna það, að matið á að standa til 1930, og þá get jeg ekki sjeð, að það sje nokkur fjarstæða að laga eftir því lög.

Hv. þm. (J. Þ.) furðaði á því, að stjórnin vildi taka við svona ummælum um matsnefndina. Það verður að gæta að því, að þar sem 40 menn starfa saman í nefnd, þá er ekki við því að búast að algert samræmi sje á skoðunum þeirra allra. Annars þarf ekki að gera mikinn hvell út af þessu.

Jeg held, að engum blandist hugur um það, að jeg vil hafa sama skatt á húsum utan kaupstaða og innan, ef þau eru rjett metin. En jeg hefi ekki haft tækifæri til þess að rannsaka matið svo, að jeg geti gengið úr skugga um, að það sje rjett.