28.02.1921
Neðri deild: 10. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

26. mál, íslensk lög verði aðeins gefin út á íslensku

Forsætisráðherra (J.M.):

Frv. þetta hefir verið samþ. óbreytt í háttv. Ed. Þegar jeg lagði það fram, rakti jeg stuttlega sögu þess, er lög þau, sem hjer er farið fram á að nema úr gildi, er síðasti votturinn um. Jeg gat um þá baráttu, sem heyja varð, áður en það fjekst, að íslensk lög væru útgefin á íslensku, og að eins undirskrifuð á íslensku af konungi. Jeg skal samt ekki fara að rifja upp þessa sögu nánarm en láta mjer nægja að vísa til þess, sem jeg sagði um þetta í háttv. Ed.

Lög nr. 12, frá 18. sept 1891, mæla svo fyrir, að lög, sem Alþingi samþ. og konungur staðfestir, skuli að eins vera með íslenskum texta. Þessu skipulagi á auðvitað ekki að breyta, en það er svo sjálfsagður hlutur, að það er óþarft að taka það fram í lögum, svo sjálfsagt, að það er jafnvel óviðkunnanlegt að hafa það í lögum.

Hitt ákvæðið, að stjórnarráð Íslands skuli annast löggilda þýðing laganna á dönsku, og þýðing þessi skuli birt í Danmörku, og dómstólar þar og yfirvöld byggja á þeirri þýðingu, það ákvæði getur ekki átt við lengur, ekki eftir 1. des. 1918, að minsta kosti ekki eftir að hæstirjettur var settur á stofn hjer. Það var eðlilegt, einkum eftir sögu málsins, að ákvæðið um löggilta danska þýðingu hjeldist, meðan hæstirjettur í Kaupmannahöfn var æðsti dómur í íslenskum málum, en nauðsynlegt var það varla. Þýðingar þessar voru prentaðar í Stjórnartíðindunum til ársins 1913; þá var því hætt samkvæmt þingsályktun frá Alþingi það ár. En þær voru gefnar út í sjerstakri bók, og látnar fylgja Stjórnartíðindunum til þeirra, er þau áttu að fá að lögum, annars seld. Þetta fjell svo niður frá 1. janúar 1918, ef jeg man rjett. í framkvæmd breytir því frv. þetta engu.

Jeg tel það rjett, að úr gildi sjeu numin smátt og smátt, eftir því sem hagkvæmt þykir, þau ákvæði í lögum, sem ekki geta samrýmst við aðstöðuna, eins og hún nú er viðurkend með sambandssamningnum, jafnvel þótt þessi ákvæði sjeu ekki lengur framkvæmd.

Að lokum vil jeg geta þess, að mjer finst óþarft, að málinu sje vísað til nefndar, því það er hvorki flókið nje mjög þýðingarmikið.