18.05.1921
Efri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

3. mál, fasteignaskattur

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Jeg hefi nú ekki mikið að segja. Þótt nál. sje stutt, þá hygg jeg þar sje tekið fram það, sem segja þarf nú um þetta mál. Eins og tekið er fram í nál„ þá hafa breytingar Nd. á frv. í för með sjer um 63 þús. kr. tekjurýrnun fyrir ríkissjóð.

Mikill meiri hl. fjhn. þessarar hv. deildar er þeirrar skoðunar, að breyta beri frv. þessu aftur, en bæði af því, að nú er skamt til þingslita og óvíst um afdrif frv. í sameinuðu þingi, þá er nefndin ásátt um að ráða til að samþ. frv. eins og það liggur fyrir.

Tekjurýrnun þessi er eigi að síður mjög varhugaverð, þegar þess er gætt, að um leið er afnuminn lausafjárskatturinn, sem mun um 100,000 kr., og þó að hann eigi aftur að jafnast upp með auknum tekjuskatti af landbúnaði, þá tel jeg það fyrir mitt leyti aðeins vonarpening, því jeg er sannfærður um, að ábúðar- og lausafjárskatturinn næst aldrei upp í tekjuskattsfrv.

Eins og sjest á nál., hefir það haft allmikil áhrif á nefndina í þessu máli, að sú stefna virðist vera að ryðja sjer til rúms að leggja sem flesta skatta á fasteignirnar.

T. d. er nú á leiðinni annað frv., sem fer í þá átt að stórhækka skattinn á fasteignunum úr því, sem þegar er komið. — En annars virðist eins og þm. haldi, að þeir eigi aðallega að hugsa um tekjur fyrir sveitar- og sýslusjóðina, en ekki fyrir ríkissjóð. Þessi stefna gerir það að verkum, að þótt jeg algerlega sje á móti því að lækka fasteignaskattinn á löndum og lóðum úr 4‰ niður í 3‰ og á húsum í verslunarstöðum úr 2‰ niður í eins og er nú í frv., er það kemur frá Nd., þá þykist jeg sjá, að fasteignunum muni verða nóg boðið samt, og líklega ofboðið að lokum, sem jeg mun síðar taka fram við umræðu um annað mál hjer í deildinni. Jeg mun því greiða atkvæði með frv., af því að jeg tel, að varhugavert sje að ofhlaða fasteignirnar með sköttum. Og hins vegar má einnig líta svo á, að skattur þessi sigli að nokkru leyti undir fölsku flaggi, og sje frekar afnotaskattur en fasteignaskattur, eins og háttv. 1. landsk. þm. (S. F.) hefir tekið fram, þar sem hann kemur niður á leiguliðana, en ekki eigendurna, þar sem jarðir eru í leiguábúð. Af þessum ástæðum getur nefndin frekar sætt sig við, að skattur þessi sje eins lágur og Nd. gekk frá honum, þegar búast má við því, að hann hækki á öðrum stöðum.