23.04.1921
Neðri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í B-deild Alþingistíðinda. (1187)

41. mál, fjárlög 1922

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Það var víst ekki mikið, sem háttv. frsm. (B. J.) svaraði ræðu minni, enda vildi svo til, að jeg var kallaður frá í bili, og heyrði því ekki alla ræðu hans. En okkur greinir mikið á, og sjerstaklega um fjármálastefnuna, enda var það aðallega um það efni, sem ræða mín snerist. Sjerstaklega er jeg óánægður með hækkunina á þessum seinni gr. fjárlaganna, samanborið við fyrri hlutann eða það, sem ætlað er til verklegra framkvæmda. Það er að vísu nokkur hækkun á 16. gr., eins og jeg mun koma að síðar.

Það veit háttv. frsm. (B. J.), að jeg hefi ekki á undanfarandi þingum sett mig á móti listum og vísindum, og aðrir háttv. þdm. vita það líka, þótt jeg hins vegar hafi ekki verið eins óðfús til slíkra styrkveitinga eins og sumir aðrir. En þegar jeg lít í kringum mig og fram undan á ástandið, eins og það er og verða mun, þá sje jeg ekki betur en að við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti. Þegar illa árar, láta flestir það ganga fyrir, sem óhjákvæmilegt er, eða svo mun öllum góðum og greindum bændum farast, og taka svo hinar þarfirnar eftir röð, eftir því sem getan leyfir. Það andlega þolir heldur nokkra bið, og á jeg þar við ýmsar upphæðir í 14. og 15. gr., sem mjer finst að við gætum sparað. Hinu er verra að fresta, bráðnauðsynlegri vegagerð eða brúa ófærurnar eða bæta lendingar. Jeg ætla þó ekki að fara lengra út í þetta, en vildi aðeins benda á þau vonbrigði, sem hljóta að verða hjá þeim mönnum, sem búist hafa við að fá fje til ýmsra nauðsynlegra framfarafyrirtækja, en í staðinn fyrir það sjá því eytt í ýmislegt, sem þeir hljóta að líta á sem óþarfa, í slíku árferði sem nú er.

Jeg vil aðeins minnast á afgjaldshækkunina á Sandfelli, vegna styrksins til húsabóta, sem gert er ráð fyrir. Háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) vill ekki kalla það styrk, sem hækkun afgjaldsins greiðist eftir. — Sams konar húsabótastyrkir hafa þó verið veittir (gegn afgjaldshækkun) yfir 40 ár, og ætíð verið kallaðir „styrkir“. Afgjaldshækkun fyrir þessi fjárframlög hefir verið mjög eðlileg og sanngjörn, þegar litið er á það, að afgjald á jörðum þessum hefir verið svo lágt. Jeg væri til með að lækka þessa 6% vexti, en ekki fella þá niður, því að jeg sje ekki betur en að prestarnir geti borgað húsaleigu með þeim launum, sem þeir hafa nú orðið, engu síður en aðrir.