22.02.1921
Neðri deild: 6. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

43. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Bjarni Jónsson:

Það er dagur hæstv. forsætisráðherra (J. M.) í dag. Og jeg verð að tala vel um hann, þótt margur brosi, þegar vel er um stjórnina talað. Mjer þótti vænt um, að þetta frv. er fram komið. En hæstv. forsætisráðherra (J. M.) veit, að mjer hefði þótt vænt um frv., þótt það hefði komið fyr. En um það tjáir ekki að tala.

Jeg get vottað það, að hæstv. forsætisráðherra (J. M.) ljet það í ljós í Danmörku, að Íslendingar mundu fagna því, að hingað yrði sendur danskur sendiherra, til þess að aðrar þjóðir sæu, að fullkomin viðurkenning væri fengin á sjálfstæði Íslands frá Dana hálfu. Þetta sama ljetum við sambandslaganefndarmennirnir í ljós við danska ráðherra og meðnefndarmenn vora. Af þessari ástæðu var það, að mjer gramdist, þegar deilt var um það hjer á þingi, hvort senda ætti sendiherra eða ekki. Það var sjálfsögð hæverska að senda Dönum ekki ótignari mann en þeir okkur, og um leið og Ísland uppfylti þessi kurteisisskyldu, sýndi það heiminum, að Ísland hafði jus legationis, hefði rjett til að senda sendiherra eins og það hafði rjett til að veita erlendum sendiherrum móttöku. Jeg vildi vinna að því, að þetta yrði gert þegar í stað, og má vera, að mjer og hæstv. forsætisráðherra (J. M.) hafi borið það eitt á milli, að jeg áleit brýna nauðsyn að þetta yrði gert undir eins, til þess að ljóslega sæist, að umskifti væri orðin. Það verkar á meðvitund manna og þjóða að sjá perlufesti dingla fyrir augum sjer öld eftir öld, perlufestina Ísland, Færeyjar, Grænland. Það er lengi verið að uppræta þetta álit á Íslandi, og það er ekkert tildur, heimska eða mont að auglýsa heiminum, hvað fólst í viðurkenningu Dana 1918. Það er ekki að eins nauðsynlegt sóma landsins, heldur einnig viðskiftum þess. Það verður að gera heiminum skiljanlegt, að Ísland er fullvalda ríki, og að konungur Íslands og konungur Danmerkur er sitt hvað, þótt sami maður gegni þeim störfum. Á þetta vildi jeg leggja meiri áherslu en hæstv. forsætisráðh. (J. M.) hefir gert, án þess þó að jeg lasti afstöðu hans til þessa máls. Og það endurtek jeg, að þetta mál miðar ekki að eins að því að halda uppi heiðri Íslands, heldur er það hagnaður þess og lífsnauðsyn. Það er lífsnauðsyn að hafa fulltrúa í Kaupmannahöfn, sem er miðstöð verslunar við Eystrasalt. Hann á að geta náð til allra þeirra landa, sem þar að liggja. Hann ætti að geta farið stuttar ferðir í þjónustu landsins til nálægra landa, og sparast við það kostnaður. Og það er ekkert hjegómamál, að hann hafi sendiherratitil. Hann verður að hafa aðgang að öllum mönnum, en það hefir ekki hver óvalinn kaupsýslumaður eða skrifstofustjóri. En sendiherra hefir aðgang að öllum; honum er veitt móttaka hvernig sem á stendur. Nafnið hefir þess vegna meiri þýðingu en menn hafa gert sjer í hugarlund, meiri þýðingu en mörgum hv. deildarmönnum dettur í hug. Sendiherranafnið opnar allar dyr. „Sesam, Sesam, opna þig!“. Og aðgangurinn opnast, enda geta menn sagt sjer sjálfir, að þeir, sem semja við ríki, verða að hafa vissu fyrir því, að sá, sem semur, hafi fult umboð, sje sendiherra.

Jeg þarf ekki að ræða þetta mál meira að sinni. Jeg kem að því síðar. Og þá mun jeg fara fram á ýmsar umbótatill., sem jeg vona, að samþyktar verði. Jeg þóttist heyra það á ræðu hæstv. forsætisráðherra (J. M.), að skoðanir okkar munu falla saman í þeim málum. Okkur hefir borið það eitt á milli, að jeg var óánægður með það, hve lengi drógst að skipa sendiherrann. Mjer þótti konungur Danmerkur eiga það skilið af konungi Íslands, að honum væri sýnd sama hæverska og hann hafði sýnt. Jeg vil ekki vefengja þau orð hæstv. forsætisráðh. (J. M.), að hann hafi ekki fundið fyr vel fallinn mann til starfans, en það mátti finna hann, þótt hæstv. forsrh. (J. M.) tækist það ekki. Jeg segi, að stjórnin hafi ekki þurft annað en rjetta út höndina, og þá hefði komið sendiherraefni á hvern fingur.

Jeg vil ekki ávíta það, sem orðið er, það er þýðingarlaust, en jeg er glaður yfir því, að þetta mál er að komast í framkvæmd, og jeg vona, að frv. megi komast heilt á húfi gegnum þingið.