23.04.1921
Neðri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

41. mál, fjárlög 1922

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg skal ekki þreyta menn með löngum ræðuhöldum. Jeg get verið stuttorður sökum þess að brtt. nefndarinnar í þessum kafla munu þm. hugþekkari en þær, sem jeg hafði framsögu fyrir í gær. Jeg vil ekki fara út í neinn samanburð á brtt. í þessum kafla og hinum, en að eins geta þess, að hækkunin í þessum kafla nemur 90 þús. kr., og með brtt. þeim, sem nefndin ætlar að mæla með, 106 þús. kr., eða er hjer um bil jafnmikil og í báðum undanfarandi gr. kaflans til samans. — Jeg hafði tækifæri í gær til að minnast á, að nefndin er samþ. meiri hl. deildarinnar um, að styrkja beri helst þau fyrirtæki, sem líkindi eru til að gefi eitthvað í aðra hönd.

Vil jeg nú minnast á hvern lið fyrir sig, og taka þá í þeirri röð, sem þeir standa á þskj. 338, til þess að þingmenn og skrifarar eigi hægra með að fylgjast með.

Fyrst er þá 57. liðurinn. Þar er farið fram á að hækka styrkinn til sandgræðslu um 5000 kr., eða úr 10 þús. upp í 15 þús. Flestum mun vera ljóst, að höfuðatvinnuvegur þessa lands hefir verið, er og mun verða landbúnaðurinn. Því að þótt hann sje ekki tekjumestur, þá er hann þó sá atvinnuvegurinn, sem heldur við lífinu í kjarna þjóðarinnar og viðheldur þjóðerninu og menningunni. Þeir, sem landbúnað stunda, hafa um myrkraaldirnar geymt hinn heilaga arf feðranna. (S. St.: Hinn heilaga eld). Já, rjett. Þeir hafa geymt hinn heilaga eld, og ekki einu sinni hefir honum mátt granda: Klerka þvaðurs heimskuhríð, er hylur sannleiksljóma. En til þess að þeir, sem stunda landbúnað, geti einnig í framtíðinni orðið kjarni þjóðarinnar og frömuðir í öllum framförum, þarf ekki hvað síst að vernda landið sjálft fyrir skemdum. Það er undirstaðan. Allir þeir, sem ríða hjá Knafahólum, munu komast við, er þeir sjá alt hulið sandi, það sem Njála segir, að alt hafi verið grasi gróið. Rangárvellirnir eru nú mikið til huldir sandi. Þar má nú sjá tveggja mannhæðaháar eyjar, þar sem jarðvegurinn stendur eftir, en er umhverfis fokinu burt og sandur hefir síðan breiðst yfir alt. Þetta stafar af því, að menn hafa ekki haft fje, þekkingu eða þol til að verja landið uppblæstri. Svo ætti ekki að verða í framtíðinni, og þótt upphæðin sje smá, sem nefndin vill nú láta leggja fram í þessu skyni, er þar þó stefnt í rjetta átt. — Það er áreiðanlega hægt að stöðva sandfokið og græða upp það, sem þegar er skemt, og sje nokkuð til, sem borgar sig, þá er það það. Þetta hefir þingið sjálft viðurkent, með því að veita 100 þús. kr. til þess að landspilda sú, sem Markarfljót hefir eyðilagt, gæti aftur orðið sem á dögum þeirra Njáls og Gunnars, þótt ekki hafi enn verið hægt að byrja á því verki, sökum hinna óhagstæðu tíma. Jeg þykist þess fullviss, að þinginu muni ekki hafa snúist hugur síðan, og kann því hinni háttv. deild að þykja upphæð sú, sem nefndin vill verja til sandgræðslu, helst til lítil. Get jeg þess til, að einhver af búhöldum þeim, sem sæti eiga í þessari háttv. deild, muni koma fram með tillögu um að tvöfalda upphæðina, og mun þá síst standa á mjer að mæla með því og gefa því atkvæði mitt.

Þá vill nefndin bæta við nýjum lið. Vill hún veita búnaðarfjelögunum 30 þús. kr. styrk. Vill hún veita þeim þennan styrk til þess, að þau þurfi ekki að öllu leyti að vera háð Búnaðarfjelagi Íslands, en geti ráðist í ýmsar framkvæmdir, svo sem verkfærakaup, án styrks frá því. Þessari upphæð vill nefndin láta skifta milli búnaðarfjelaganna eftir dagsverkatölu, til þess að það fjelagið, sem mest hefir unnið, fái mestan styrkinn. Ekki er tilgangurinn sá, að fjelagsmenn skifti með sjer þessum styrk þannig, að hver fjelagsmaður fái t. d. 11 aura fyrir hvert dagsverk, sem hann hefir látið vinna; heldur er tilætlunin sú, að fjelögin noti styrkinn til einhverra framkvæmda.

Með því að veita hinum einstöku búuaðarfjelögum þetta fje, er því betur varið en þótt sömu upphæðinni hefði verið bætt við styrkinn til Búnaðarfjelags Íslands. Því að fjeð, veitt á þennan hátt, mun verða til þess að vekja samkepni milli fjelaganna innbyrðis og á þann hátt knýja til framkvæmda, sem ekki mundi að öðrum kosti verða unnar. Þar sem nú gagnsemi þessa styrks fyrir landbúnaðinn er svo auðsæ, er jeg þess fullviss, að hann muni hljóta góðar undirtektir bænda og bændavina hjer á þingi.

58. liðurinn er um styrk til Garðyrkjufjelagsins. Áður hefir fjelaginu verið veittur styrkur til að launa garðyrkjustjóra. En nú sótti fjelagið um þessar þúsund krónur í viðbót, til þess að geta gefið út bæklinga um garðrækt og því um líkt. Vitanlegt er, að garðrækt hjer á landi er ekki svo langt komin, sem vera bæri. Víða, þar sem garðrækt gæti vel borgað sig, er hún ekki stunduð, svo nokkru nemi, nema á 10. hverjum bæ. Ætlun Garðyrkjufjelagsins er nú að verja þessum styrk til þess að örfa menn til garðræktar og veita tilsögu, svo að verk það, sem unnið er, verði ekki ónýtt. Býst jeg við, að allir vilji veita fjelaginu þennan styrk, þar sem allir vita, hvað bókaútgáfa er afardýr nú.

Þá er 59. liðurinn. Nefndin hefir þar hækkað styrkinn til Fiskifjelags Íslands úr 50 þús. kr. upp í 60 þús. Þetta er ekki mikil hækkun. Er þessi viðauki veittur eftir beiðni fjelagsins, og virðist mjög rjettlátur, borinn saman við styrk Búnaðarfjelagsins.

60. liðurinn er fjárveiting til Gísla Guðmundssonar til kjötrannsókna. Gísli hefir mikinn áhuga á þessu máli. Hann er nú kominn á rannsóknarferil, sem virðist geta leitt til þekkingar á því, hversvegna kjöt súrnar stundum og verður þannig verri vara. Virðist öll rannsókn hans benda til þess, að orsökin sje sú, að fjenu hafi verið slátrað þreyttu. En til þess að geta sannað þetta fullkomlega þarf Gísli að sigla. Ætlar hann sjer að ferðast til Kiel og verða þar á „laboratorium“ hjá frægum þýskum efnafræðingi. En sökum fjárskorts þýska ríkisins, verður þessi maður sjálfur að kosta „laboratoríið“, og þessvegna verður hver sá, sem þar vill vinna, að leggja sjer sjálfur til efni það, sem hann vinnur úr, og auk þess borga með sjer. Gísli hygst að leggja af stað með 10000 kr. Sótti hann um 5000 kr. styrk til þingsins, hitt ætlar hann að borga úr eigin vasa. — Nefndin vill ekki veita honum nema 2500 kr. Lítur hún svo á, að hinar 2500 kr., sem vantar upp á fjárhæð þá, sem hann beiddist, eigi sláturhús og kjötsöluhús að borga, þar sem rannsóknin er mest gerð í þeirra þágu. Býst nefndin við, að ekki muni erfitt að fá þá upphæð þaðan. Nefndin teldi meira að segja rjettast, að sláturhús og kjötsöluhús borguðu allan kostnað af rannsóknunum, sem ríkissjóður ekki borgaði, því að auðvitað er Gísli ekki skyldur að leggja neitt fje fram, þar sem hann er ekki að rannsaka þetta til að græða á því, heldur eingöngu af áhuga fyrir málefninu. 61. liðurinn er um styrkinn til Heimilisiðnaðarfjelagsins. Aths., sem nefndin hefir tekið upp, býst jeg við að hafi fallið niður hjá stjórninni af vangá. Hún var lengri í fjárlagafrv. fyrra árs. Þar var styrkurinn bundinn því skilyrði, að heimilisiðnaðarfjelögin ynnu saman og hefðu sameiginlega framkvæmdastjórn. Þetta ákvæði tók stjórnin upp í fyrirsögnina, og varð athugasemdin því óþörf, nema það af henni, sem nefndin hefir nú tekið upp, ef stjórnin hefir ætlast til, að styrkurinn til skóla Halldóru Bjarnadóttur hjeldist. En það vil jeg álíta, þangað til jeg heyri annað.

í 62. lið er farið fram á 200 kr. hækkun til vörumerkjaskásetjara. Þessi litla hækkun kemur af því, að hann þarf sjálfur að leggja sjer til húsnæði, ljós og hita, en þetta er aukakostnaður, sem rjett er að sjá við hann. Stjórnin hækkaði laun hans um 200 kr., en nefndin telur rjett að hækka þau um aðrar 200. Býst jeg ekki við neinum mótbárum við því; það virðist svo sanngjarnt.

63. liðurinn er aðeins málsrjetting. Nefndinni fanst óþarft að setja „til líkamlegra íþrótta“, þar sem íþróttir er vanalega haft um fimleika. Þegar talað er um andlegar íþróttir, er „andlegar“ altaf haft með, svo orðið „líkamlegar“ er óþarft hjer.

Í 64. lið leggur nefndin til, að ábúandanum á Tvískerjum verði veittar 800 kr. Kunnugir segja, að nauðsynlegt sje að bygt sje á Tvískerjum, svo að hægt sje að fá þar beina og fylgd. En mjög erfitt kve vera að sækja þaðan til heyskapar og aðdrættir allir svo örðugir, að ábúandi sá, sem þar er nú, muni alls ekki geta haldist þar Við, fái hann ekki að minsta kosti 800 kr. styrk.

65. liður er settur eftir beiðni stjórnarinnar, því að hann hefir fallið niður. Áður hefir verið samþykt af fjvn. að greiða þetta fje, svo sjálfsagt er að koma því inn í fjárlögin, svo stjórnin sje ekki í neinum vafa um, að henni beri að greiða það.

Þá er 66. liður brtt. Þar eru taldir upp nokkrir nýir liðir, sem nefndin leggur til að teknir verði upp í fjárlögin. Fyrst er fjárveiting til bryggjugerðar sunnan Blönduóss. Þetta er ekki annað en endurveiting, því að í núgildandi fjárlögum eru veittar til þessa fyrirtækis 18 þús. kr. Nú er ætlast til, að í sumar verði aðeins unnið fyrir 8 þús. kr. Hjer er því ekki um annað að ræða en flytja þessar 10 þús. kr., sem eftir verða af fjárlögum þessa árs, yfir í fjárlög næsta árs. — Mönnum mun vera kunnugt um hafnleysið á Blönduósi og sömuleiðis, hversu miklum töfum það hefir oft valdið skipunum. Það getur því orðið til beins hagnaðar fyrir ríkissjóð að leggja fram fje til þess að minka tafir skipanna á þessari höfn, eða rjettara sagt hafnleysu. Hafi jeg gleymt að taka eitthvað fram þessari fjárveitingu viðvíkjandi, þá er hjer í deildinni háttv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.), sem gæti bætt úr því. Jeg held annars að þessi fjárveiting muni ekki mæta mótspyrnu, því að hún virðist vera ein af þeim sjálfsögðu.

Til hafskipabryggju á Búðareyri vill nefndin veita 10 þús. kr., alt að 1/3 kostnaðar. Þetta er endurveiting að nokkru leyti. Eins og menn vita, er Búðareyri endastöð Fagradalsbrautarinnar. Þessi braut er mjög þörf Hjeraðsbúum. Það eitt er að brautinni, að undirbygging vegarins í dalnum er ekki nógu góð. Hún þyrfti að vera svo, að hægt væri að nota til flutninganna betri tæki en nú gerist, helst svo sterk, að hægt væri að hafa bíla, sem drægju vagna á eftir sjer. Mætti þá hafa Egilsstaði fyrir nokkurskonar miðstöð, flytja þangað vörurnar á hinum stóru flutningstækjum, og þaðan svo út um sveitina. En til þess að þessi braut geti komið að fullu gagni, er hafskipabryggja nauðsynleg sem niðurlag eða endastöð á þessum vegi. Aths. nefndarinnar við þessa fjárveitingu er sú sama, sem áður hefir fylgt fjárveitingum til þessarar bryggju.

Til lendingarbóta í Rifsósi vill nefndin veita 5000 kr. Skjöl og teikningar hafa legið fyrir nefndinni, sem sýna, að verkið er framkvæmanlegt fyrir þetta fje. Mikil nauðsyn er á að hafa bærilega lendingu þarna, til að geta bjargað skipum, einkum mótorskipum, undan sjó. Lendingin þarna er nú mjög slæm, og til þess að hún geti orðið bærileg, þarf að dýpka ósinn. — Eins og jeg gat um í gær, hefir nefndin sjerstaklega haft auga á því, sem viðkemur lendingum, sökum þess, að þar sem vantar lendingar, eru ekki einungis eignir manna í hættu, heldur einnig líf.

Þá kem jeg að d-lið (undir 66), að veittar sjeu 8000 kr. til þess að dýpka siglingaleiðir inn til Stokkseyrar, og er það þriðjungur kostnaðar. Það er gert ráð fyrir, að þetta kosti 22–24 þús. kr., og þótti nefndinni rjett að veita til þessa 1/3 af upphæðinni. Mjer er sagt, að það sjeu tvö sund, sem þurfi að dýpka, til þess að þau sjeu skipum fær til siglingar. Og er þá nokkuð bætt úr hafnarvandræðunum á Suðurlandi með þessari litlu upphæð, sem farið er fram á.

Næsti liðurinn, e-liðurinn, er til sjóvarnargarðs á Eyrarbakka, og er uppbót á áður veittum fjárstyrk, er var of lítill. Það er veitt þó af því, sem á vantaði, og er hjer notað sama hlutfall og nefndin hefir viðhaft við slíkar fjárveitingar. Það sjer hver maður, hvílík nauðsyn er á að viðhalda sjóvarnargarði á Eyrarbakka, þar eð landið liggur opið fyrir holskeflum, sem á land brjótast og gætu brotið og bramlað, ef ekki væri gert eitthvað til að tálma för þeirra.

Þá er f-liðurinn, sem er 5000 kr. styrkveiting til hjálpræðishússins í Hafnarfirði. Hvað sem má segja um hjálpræðisherinn og trúmálastarfsemi hans, sem jeg vil leiða hjá mjer, þá er þó ekki hægt að neita því, að líknarstarfsemi hans hefir verið hin nýtasta og mikils virði. Gistihúsið hjer hefir reynst bæði gott og ódýrt, og er vel farið, ef hjálpræðisherinn er styrktur til þess að koma upp opinberu gistihúsi. Jeg skal ekki segja, hvað er hjer á landi, en víst er um það, að þessi hjálparviðleitni hans er viðurkend um allan heim sem mikilsverð og þörf. Sveitamenn og sjómenn geta borið vitni um þetta, því að áður kom það oft fyrir, að þeir komu hingað án þess að hafa nokkurt skýli yfir höfuðið, en nú geta þeir fengið bæði góða og ódýra gistingu í húsi Hjálpræðishersins.

Næst er g-liðurinn, og er uppbót á skurðgrefti í Miklavatnsmýri. Þetta mál hefir verið hjer áður til umr. á þingi. Gestur á Hæli og Ágúst í Birtingaholti tóku að sjer að grafa skurð eftir áætlun. En verkið reyndist dýrara en áætlað var, sökum þess, að það var móhella í botni, og gátu þeir því ekki hagað tilboðinu eftir áætluninni. Sökum þessa ófyrirsjáanlega atviks varð 4800 kr. halli á verkinu, og lagði landsverkfræðingur, Geir Zoega, það til, að þeir fengju þessa uppbót. Raunar fóru þeir fram á meira, en þareð verkfræðingur áleit, að þeir hefðu einungis beðið 4800 kr. halla af því atviki, sem ófyrirsjáanlegt var, taldi hann þetta sanngjarnast, og nefndin fjelst á það. Af þessum 4800 kr. veitti þingið 1919 3000 kr., eftir eru þessar 1800 kr.

Þá er 1000 kr. styrkveiting til útgáfu „Sindra“, og leggur nefndin til að þetta sje veitt. Þetta er iðnfræðilegt tímarit, og þótt farið væri fram á meira fje, þá gat nefndin ekki sint því, þótt annars væri full þörf á því.

i-liðurinn er 500 kr. styrkur til Þórdísar Ólafsdóttur. Hún er dóttir Ólafs á Fellsenda, mesta merkisbónda. Hún hefir verið erlendis í nokkur ár, til þess að fullkomna sig í hannyrðum og öðrum kvenlegum fræðum, sem nauðsynlegt er að hver stúlka kunni. Þetta er lítill skóli, sem hún kennir við, og verður ekki keppinautur hinna stærri skóla; hún býst við að kenna bæði munnlegt og verklegt. Hún hefir sýnt mikinn áhuga í þessu máli og kent bæði heima og í Borgarnesi, og hefir hún meðmæli margra mektarmanna í Borgarnesi, er vel þekkja til. Jeg býst við, að háttv. deild verði þessu ekki mótmælt, og hverf jeg því frá þessu og tek fyrir næsta lið (j-lið), sem er 1500 kr. styrkur til Þórðar Jónssonar á Mófellsstöðum. Þetta er ákaflega merkilegur hagleiksmaður, og sótti um styrk til þess að gera smiðju, og á það jafnframt að vera skýli fyrir hann. Hann er bæði hugvitsmaður og listamaður. Sem dæmi upp á þetta má nefna, að hann skoðaði eitt sinn vjel, með fingurgómunum auðvitað, því að hann er blindur, en þegar hann kom aftur til smiðju sinnar, smíðaði hann aðra eins og setti saman. Hann sótti um 2000 kr., en við ætlumst til að hann fái 500 kr. annarsstaðar frá; og hygg jeg, að það muni einungis vera ánægja fyrir sveitunga hans að skjóta saman og gefa honum það, sem á vantar.

Þá kem jeg að 18. gr., tölulið 67, að fyrir 3000 kr. komi 1200 kr., með verðstuðulsuppbót. Jeg skal játa, að jeg tala ekki fyrir minn munn hjer, en mál þetta hefir nýlega verið hjer til umr., og um það þæft töluvert, svo það er öllum kunnugt, og þarf jeg því ekki að fjölyrða meira um það.

Næst er 68. liður, sem er 400 kr. viðbótareftirlaun til Sigríðar Hjaltadóttur, og sama upphæð til Ingileifar Snæbjarnardóttur. Jeg býst ekki við, að því verði mótmælt, sem nefndin lagði til, að þessum tveimur konum yrði veitt, þar sem þetta var nýlega samþykt í fjáraukalögunum.

69. liðurinn er styrkur til síra Bjarnar Jónssonar frá Broddanesi, nú prófasts að Miklabæ. Hann sækir um hækkun á eftirlaununum, svo þau verði 1000 kr. alls, en til þess þarf 475 kr. í viðbót, er nefndin leggur til að veitt verði. Það þekkja margir þennan mann. Hann er bráðgáfaður og merkismaður. Hann varð kandidat sama ár og jeg kom í skóla. Hann var hvers manns hugljúfi og gerði mörgum manni gott, og í alla staði þarfur maður í þjóðfjelaginu, eins og allir mentaðir menn eiga að vera og eru, er þeir hafa hinn rjetta lykil að góðum framkvæmdum, þ. e. að hugsa rjett og vilja vel.

Þá er 70. liður, sem er 100 kr. styrkur til gamals manns, sem var póstur. Hann hafði 100 kr., en menn geta hugsað sjer, að lítið yrði úr þeim, og sótti hann um 100 kr. í viðbót, sem þó mun ekki vera meira en 20 kr. fyrir stríð. Nefndin leit svo á, að þetta væri bara uppbót á verðfalli peninganna, og álítur, að sjálfsagt sje að veita þetta.

Næst er 300 kr. styrkur til tveggja pósta, Kristjáns Jónssonar og Jóhannesar Þórðarsonar. Jeg heyri sagt um fyrri manninn, að hann hafi verið mesti dugnaðarmaður. en sje nú ófær til vinnu. Hinn manninn þekki jeg sjálfur. Hann er nú aldraður maður og ei fær um að gegna póstferðum. Nefndin leggur til að þetta sje veitt.

Þá er 500 kr. styrkur til Páls Erlingssonar. Hann hefir notað mikinn hluta starfsæfi sinnar til að útbreiða sundkunnáttu hjer á landi. Fyrir nokkrum árum var algerlega fyrir það tekið, að nokkur gæti í heilum landsfjórðungum kent sund. Jeg varð að bíða með að læra það, þar til jeg kom til Kaupmannahafnar, þótt mig langaði til þess löngu fyr. Páll Erlingsson hefir útbreitt merkilega og gagnlega íþrótt, og á því gott eitt skilið, og má þetta ekki vera minna en hjer er farið fram á.

Næst er 300 kr. styrkur til Erl. Zakaríassonar. Nefndin lagði til, að honum yrði veitt það sama og póstunum. Hann hefir unnið að vegagerð og verið atorkumaður. en er nú sjóndaufur eða sjónlaus. Það er ilt, ef hann þarf að fá sveitarstyrk og missa um leið mannrjettindi sín. En jeg álít, að þeir, sem unnið hafa fyrir ríkið, hafi kröfu til þess, eins og hjú til húsbónda; en ríkið á að vera sínum hjúum góður húsbóndi, og því skylt að sjá fyrir þeim.

73. liður er 10 þús. kr. lán til Vigfúsar Guðmundssonar í Borgarnesi. Meiri hluti nefndarinnar var þessu meðmæltur, því að hann áleit, að það væri mikils vert, að ferðamenn gætu fengið gistingu, er þeir væru á ferð um Borgarnes. Jeg áskildi mjer mitt atkvæði laust.

Loks kem jeg að 74. og síðasta liðnum, sem er heimild til að borga Önnu, ekkju Stefáns Stephensens, eftirlaun. Má geta þess, að nefndin lagði það til á síðasta þingi, að henni yrði greitt jafnmikið og maður hennar hefði haft í eftirlaun. Af vangá hefir prentast 400 kr. í stað 600, og mun jeg leiðrjetta það við 3. umr.

Ef jeg hefi skýrt tillögur nefndarinnar of lítið, þá mun hæstv. atvrh. (P. J.) skýra þetta betur. Raunar hefi jeg rakið brtt. nokkuð, en mun skýra betur, ef einhverjir vilja spyrja um eitthvert atriði. Jeg býst við, að auðvelt verði að fá þessar brtt. samþyktar, því að þær eru allar til bóta að einhverju leyti, og get jeg því horfið frá framsöguræðu minni.

Jeg hafði nær gleymt brtt. einstakra manna. Það er þá fyrst brtt. á þskj. 359, við 16. gr. 30., frá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Hann leggur til, að við liðinn um styrk Sig. Ólafssonar frá Hellulandi verði bætt tveim hreppstjórum. En Sigurði er styrkurinn veittur í viðurkenningarskyni fyrir hagleik og hugvit, en ekki fyrir hreppstjórn, Nefndin gat ekki aðhylst þetta, því að þótt hann sje mikill hugvits maður, þá er ekki þar með sagt, að allir hreppstjórar sjeu það.

Þá er brtt. IV á þskj. 359, frá háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.). um að kr. 10.000 sjeu veittar til endurbótar og viðgerðar á brimbrjótnum í Bolungarvík. Jeg gat þess í gær, að fyrir sjerstök atvik tók nefndin ekki þessa fjárveitingu upp; en hún heyrir undir þar fjárveitingar, sem nefndin lætur ekki niður falla, eins og t. d. viðgerð vita Jeg býst við, að ef háttv. flm. tillögunnar (S. St.) heldur eins snjalla ræðu um nauðsyn brimbrjótsins eins og hann gerð 1909, þá muni mál þetta verða auðsótt, og nefndin er þessu meðmælt.

Þá er brtt. V á þskj. 359, frá háttv. þm. Ak.(M. K.). um að kr. 300 sjeu veittar til Kristins Jónssonar. Mál þetta er nefndinni óþekt, og hefir hún ekki heyrt um þetta fyr, og hefir því algerlega frjálsar hendur við atkvæðagreiðsluna.

Næst er brtt. VI á sama þskj., frá háttv. þm. Borgf. (P. 0.), um 30,000 kr. lánveitingu til þess að koma á fót kjötniðursuðuverksmiðju. Meiri hluti nefndarinnar leggur á móti þessu, en það mun annars sýna sig við atkvgr., hvern byr till. hefir.

Loks er brtt. VII, einnig á sama þskj., frá hv. þm. Ísaf. (J. A. J.), um lánveitingu, alt að 100,000 kr., til sjúkrahússbyggingar á Ísafirði. Nefndin er á móti þessu, og frsm. fyrri hlutans hefir tekið fram ástæðurnar fyrir því, og hafa þær verið ræddar í deildinni.

Það er ekki svo að skilja, að nefndin hafi ímugust á þessu, en hún telur sjer ekki fært að styrkja bæði Eyrarbakka og Ísafjörð, en það rjeði úrslitum, að byrjað er á byggingunni á Eyrarbakka, en ekki á Ísafirði.

Nú hygg jeg engu gleymt og óhætt að setjast niður.