23.04.1921
Neðri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

41. mál, fjárlög 1922

Gunnar Sigurðsson:

Jeg skal ekki í stórum stíl hrifsa framsöguna frá háttv. frsm. (B. J.), en verð þó að fara nokkrum orðum um einn liðinn í frv., sandgræðsluna. Sá liður snertir mitt kjördæmi, og fjvn. hefir gengið inn á að veita 5 þús. kr. til þess sjerstaklega, og er jeg þakklátur háttv. samnefndarmönnum mínum fyrir það.

Allir kannast við vísupartinn, að þar sem að áður akrar huldu völl ólgandi Þverá veltur yfir sanda, og þarf ekki að lýsa vatnaáganginum í Rangárþingum; hann er flestum kunnur. En spell sandfokanna eru ef til vill síður kunn. Öld fram af öld hefir nú þessi vágestur eytt og óprýtt hinar ágætu og frjóu gullfögru sveitir, Rangárvellina og Landið, og enda fleiri sveitir. Mörg höfuðból hafa lagst í auðn og önnur smærri býli svo tugum skiftir. Má til dæmis benda á höfðingssetrið Klofa á Landi, þar sem skörungurinn Torfi bjó, Stóru-Velli o. fl. Víða standa smábýli nú í þessum sveitum og gróðrarreitir í eyðimörkinni eins og minnisvarðar yfir hinum fornu, fögru sveitum. Þó hjer sje að verki svo voldugt afl, til að níðast á einum sólfegurstu og söguríkustu sveitum þessa lands — þá mega mennirnir sjálfum sjer og sinni stjórn að miklu leyti um kenna. Þeir hafa flúið sandinn, í stað þess að hefta hann. Það er eins með sandgárana og vatnsföll, að þá skal að ósi stemma, en örvar gáranna geiga ekki þegar þeir hafa einu sinni náð sjer fram.

Jeg man frá bernsku minni austur þar eftir einni ágætisjörð. Þar var þá einn sandgári á uppsiglingu. En ekkert var gert til þess að hefta hann. Og eftir 4–5 ár var jörðin öll komin í kaf.

Svo stendur sjerstaklega á nú, að gári er að koma úr Landsveit og stefnir suður á Holtasveit, sem er sveit að mestu óskemd af sandfoki. Þennan gára þarf nauðsynlega að stöðva.

Alt ber því að sama brunni, að óumflýjanleg nauðsyn sje að veita fje það, sem ræðir um í 16. gr.

Jeg skal geta þess, að Búnaðarfjelagið hefir stutt að hækkun styrksins. Þessi styrkveiting ætti að verða upphaf þess, sem á að verða framtíðardraumur allra manna á landinu, að gera allar Rangárvallaauðnirnar að grónu landi.