23.04.1921
Neðri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

41. mál, fjárlög 1922

Pjetur Ottesen:

Jeg á hjer eina brtt. á þskj. 359, við 21. gr. fjárlaganna, þar sem farið er fram á það, að landsstjórninni sje veitt heimild til þess að veita alt að 30 þús. kr. lán úr viðlagasjóði, til að koma á fót kjötniðursuðuverksmiðju í Reykholtsdalshreppi í Borgarfjarðarsýslu.

Ástæðan til þess, að jeg hefi leyft mjer að koma fram með þessa brtt., er sú, að fyrir þinginu liggur erindi frá 11 bændum í Borgarfirði, þar sem þess er farið á leit við þingið, að það heimili þessa fjárveitingu.

Af því, að margir hv. deildarmenn hafa ef til vill ekki kynt sjer erindi þetta, vil jeg með nokkrum orðum drepa á aðdraganda þessa máls og þær ástæður, sem liggja til grundvallar fyrir því, að málaleitun þessi er fram komin.

Sumarið 1919 hjeldu nokkrir bændur í uppsveitum Borgarfjarðarsýslu fund með sjer til að ræða um sölu og söluhorfur á innlendum afurðum. Bændur þessir bundust samtökum um það á fundinum að ráða mann til utanfarar, til að læra niðursuðu matvæla — kjöts og fiskjar — og jafnframt að bera kostnaðinn af sendiför og námi þessa manns. Þeim tókst svo brátt að fá ungan og mjög efnilegan mann, Jón Erlendsson frá Sturlu-Reykjum, til þessarar farar, og fór hann þegar um haustið til Danmerkur. En þegar þangað kom var þess enginn kostur, að hann kæmist að neinni niðursuðuverksmiðju, og reyndust þar allar leiðir lokaðar til slíks náms, og var öllum niðursuðuaðferðum haldið þar stranglega leyndum. Naut maðurinn þó ötullar aðstoðar bæði einstakra manna og fjelaga. t. d. Dansk-íslenska fjelagsins, en það hrökk ekki til samt.

Lagði hann þá leið sína til Noregs og farnaðist þar betur. Komst hann þar að námi við niðursuðuverksmiðju og dvaldi þar um árstíma, eða rúmlega það. Og nú er maður þessi kominn heim aftur, með bestu vitnisburðum kennara sinna og er fullur áhuga á starfi sínu, og má sjálfsagt telja hann mjög vel til þess fallinn að taka að sjer forstöðu á framkvæmd slíks fyrirtækis. Síðan hefir einnig verið gerð áætlun — að vísu aðeins lausleg — um kostnað við byggingar og áhöld fyrirtækisins, og var hún miðuð við verðlag 1919. Samkvæmt þeirri áætlun kostar sjálft verksmiðjuhúsið, ásamt vatnsveitu og öðrum nauðsynlegum útbúnaði, 75 þús. kr., en vjelar til niðursuðu, dósasmíðis og annars, um 30 þús. kr., eða alls 105 þús. kr. Fjelagið ætlar sjer að reisa verksmiðjuna við hveri í Reykholtsdal, til þess að geta notað hverahitann eins og kostur er, enda mundi það draga mjög úr rekstrarkostnaði fyrirtækisins. Notkun hverahitans hefir talsvert verið reynd áður í Borgarfirðinum og gefist vel. Líklegast er, að verksmiðjan verði reist við Deildartunguhver. Því það er hvorttveggja, að sá hver er stærstur hver þar í dalnum, og aðstæður allar góðar. Hann liggur t. d. allnærri sýsluvegi, og ætti því að verða auðvelt um aðdrætti og að koma afurðunum frá. Vegalengdin þaðan og til Borgarness er um 50 km., alstaðar bílfær, góður akvegur, enda mundu bílar verða notaðir þar til flutninga, eins og þegar er byrjað þar í sveitinni, þar sem bændur í uppsveitunum hafa keypt sjer stóra og góða flutningabifreið.

Þótt aðaltilgangur verksmiðjunnar sje að sjálfsögðu að sjóða niður kjöt, er einnig til þess ætlast, að soðinn verði niður fiskur líka. Um kjötniðursuðuna þarf varla að fjölyrða — hún er nauðsynleg, og ef til vill happadrýgsta úrræðið til þess að koma íslensku kjöti á sem bestan hátt á sem bestan markað, og upptök þessa eru einmitt þeir erfiðleikar, sem á síðustu árum hafa komið í ljós, á því að afla viðunandi markaðs fyrir kjötið, þar sem skygt hefir fyrir söluhorfurnar bæði á söltu kjöti og frystu, meðal annars vegna útflutningserfiðleika.

En þar sem gera má ráð fyrir því, að verksmiðjan mundi ekki geta starfað neitt verulega við kjötniðursuðuna nema takmarkaðan tíma á ári, hefir, eins og jeg tók fram áðan, einnig verið gert ráð fyrir fiskniðursuðu á því tímabili, þegar fiskafli er á Akranesi. En þaðan er um tveggja tíma sigling í Borgarnes, og ætti það því ekki að vera frágangssök að koma nýjum fiski að verksmiðjunni til niðursuðu. Þá er einnig — eins og kunnugt er — mikil laxveiði í Borgarfirðinum, og liggur því vel við að gera einnig tilraun með niðursuðu á honum, enda er þess ekki síður nauðsyn að reyna að greiða fyrir markaði hans, þar sem mjög erfitt hefir reynst undanfarið að koma honum á erlendan markað óskemdum og sæmilega söluhæfum. Þetta er því sennilega eina ráðið til að bæta þennan markað, og hefir laxniðursuða áður verið reynd í Borgarfirðinum af útlendum manni og farnast vel.

Þessu fjelagi leikur mjög hugur á því, að geta komið þessari hugmynd sinni í framkvæmd á næsta ári, og það svo tímanlega á árinu, að hægt verði að sjóða niður kjöt á því hausti.

Vil jeg nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa hjer upp niðurlagsorðin í þessu erindi þeirra:

„Vjer snúum því máli voru til hins háa Alþingis, í fullu trausti þess, að það sjái sjer fært að verða við málaleitan vorri, og væntum þess, að því sje fyllilega ljóst, hver þörf sje á því, að leita fyrir sjer um nýjar leiðir til að koma afurðum landbúnaðarins í meira álit og hærra verð en vjer eigum nú við að búa“.

Jeg er þess fullviss, að háttv. deildarmenn munu vera þessum mönnum sammála um, að nauðsyn beri til þess að ryðja íslenskum afurðum braut erlendis, meira en nú er gert. Og ráðið til þess verður þá fyrst og fremst það, að reyna fleiri verkunaraðferðir. Og er nauðsyn þess ekki minst hvað kjötið snertir.

Nú er fylsta útlit fyrir það, að verðið, sem fæst fyrir saltkjöt á erlendum markaði, muni ekki bera framleiðslukostnaðinn, enda er það vitanlegt, að saltverkunaraðferðin er að verða úrelt, og það liggur ef til vill nær en margan varir, að saltkjötsmarkaðurinn hverfi alveg úr sögunni. Og hvar stöndum vjer þá, ef ekkert verður aðgert?

Að vísu eru til fleiri verkunarleiðir. Sennilega væri hægt að fá markað fyrir kælt kjöt t. d. í Englandi. En það eru þó miklir örðugleikar á því að nota þann markað. Og veldur þar mestu um, hvað slátrunin er dreifð hjer á marga staði, en til flutninga mundi sennilega þurfa allstór skip, og yrði því mjög dýrt að láta þau sleikja allar þær hafnir, sem sækja þarf kjötið á. Auk þess mundi þurfa að koma upp kælihúsum á öllum slátrunarstöðvunum. Þessir annmarkar allir valda því, að það verður sennilega lítt kleift að koma kjötinu kældu á markaðinn.

Einnig hefir verið bent á, hvort ekki mundi hægt að fá afnumdar hömlur á innflutningi lifandi fjár til Englands, sem öllu því, að útflutningur á lifandi fje þangað lagðist með öllu niður. Alla þessa sölumöguleika, sem nú hefi jeg drepið á, þarf nauðsynlega að rannsaka.

En hvað sem því líður, þá er þó bráðnauðsynlegt að gera tilraun með niðursuðu á kjöti og fleiri afurðum, enda er það álit verslunarfróðra manna, að mjög miklar líkur sjeu til, að ryðja megi þessum vörum braut á erlendum markaði. Mun þessi verkunaraðferð því óefað vera líklegust til skjótrar úrlausnar á þessu mikla vandamáli.

Auðvitað er það, sem hjer er um að ræða, aðeins lítil byrjun. En það er til gamalt máltæki, sem segir: Hálfnað er verk, þá hafið er.

Jeg fulltreysti því, að háttv. deildarmenn sýni viðleitni þessara manna alla velvild og líti á það, hve þessir menn eru ótrauðir að leggja á sig fyrirhöfn og áhættu, til þess að brjóta hjer ísinn. Jeg fulltreysti því, að háttv. deildarmenn ljái þeim lið og unni þeim þessa láns, sem hjer er farið fram á. Þetta lán mundi verða þeim mikill styrkur. Er það bæði, að vextir af því eru lægri en víxilvextir, og þó einkum hitt, að það er til langs tíma. Vil jeg um leið þakka hæstv. atvrh. (P. J.) undirtektir hans um þetta mál.

Jeg hefi og vakið athygli háttv. landbúnaðarnefndar á þessu erindi, og þykist jeg þess fullviss, að nefndin sje málinu hlynt.

Þá má og á það minnast, að allmikið er flutt inn í landið af niðursoðnum vörum, bæði kjöti og fiski.

Árið 1916 voru þessar vörur fluttar inn fyrir 70 þús. kr., og mun þó meira hafa verið stundum. Það er sorglegt til þess að vita, að vjer skulum kaupa frá útlöndum rándýru verði vörur, sem þó eru framleiddar í landinu sjálfu — vörur, sem við getum ekki selt á erlendum markaði, nema fyrir lágt verð, af því verkunaraðferðir vorar eru svo einskorðaðar og úreltar.

Háttv. þm. mun reka minni til þess, að hjer á dögunum var á ferðinni í þinginu frv., sem veitti Mýramönnum og Borgfirðingum heimild til þess að taka Andakílsfossana eignarnámi. Þar hafa nú verið gerðar rækilegar rannsóknir og áætlanir um rafvirkjun þeirra fossa. Sú áætlun er miðuð við það að taka 3 þús. hestöfl til virkjunar, og er kostnaðurinn við það með leiðslum og öllu saman, áætlaður um 3 miljónir króna. Þessi áætlun var miðuð við það, hvað mikið slíkar virkjanir kostuðu á síðastliðnu ári, og einnig með einhverri hliðsjón af virkjun Elliðaánna hjer.

Á sýslufundum, sem haldnir voru í vetur eftir nýárið, fóru sýslurnar fram á, að þingið heimilaði stjórninni að ábyrgjast 3 miljón króna lán til virkjunar Andakílsfossanna og rafveitu frá þeim og út um hjeraðið. Þessi beiðni hefir legið hjá hv. fjvn., og sje jeg nú á brtt. nefndarinnar, að hún hefir ekki tekið þessa ábyrgð upp í fjárlögin. Jeg geri ráð fyrir, að nefndin hafi ekki gert þetta vegna þess, að framkvæmd verksins er ekki, enn sem komið er, bundin við ákveðinn tíma, og hafi litið svo á, að þar sem nú er ákveðið að þing skuli háð á hverju ári, þá sje hægurinn hjá að taka þessa ábyrgð upp seinna. Jeg þykist því mega treysta því, þegar til framkvæmda kemur, að ekki muni þá standa á nauðsynlegri ábyrgð ríkissjóðs, svo mikið nauðsynja- og framfaramál, sem hjer er um að ræða.

Þeir rafmagnsfræðingar, Steingrímur Jónsson og Guðmundur Hlíðdal, sem hafa undirbúið þetta verk, segja, að 10 þúsund hestaflaorku megi fá úr þessum fossum, og öll aðstaða mjög hagleg. Ef öll þessi 10 þús. hestöfl væru virkjuð, þá er um afarorku að ræða, sem getur uppfylt mikla þörf. Jeg hefi hjer í höndum álit þessara verkfræðinga, um það, að fremur sje auðvelt að leiða þetta rafmagn til Reykjavíkur og annara staða hjer í grend, er þörf hafa slíkrar orku.

Svo er ráð fyrir gert, að orkan verði leidd til Akraness, og lægi sú lína fyrst suður að Hvalfirði og svo út eftir, en frá þeim stað við Hvalfjörð, sem lína þessi lægi um, eru 40 kílómetrar til Reykjavíkur. Af þeirri leið er sjóvegur aðeins 2,8 km. yfir Hvalfjörð. En að öðru leyti er leiðin um bygð.

Þessir menn hafa og skýrt mjer svo frá, að eftir þeim rannsóknum, sem gerðar hafa verið á fossum hjerlendis, þá munu Andakílsfossarnir, hvað legu þeirra og alla aðstæðu snertir, vera álitlegastir til þess að uppfylla raforkuþörf Reykjavíkur og nærliggjandi staða hjer, og á svo stóru svæði, sem orka þeirra hrekkur til.

Jeg er nú svo bjartsýnu á framtíð þessa lands, að jeg vona, að fljótt verði hafist handa um þessi stórræði, og að þá muni þingið veita þeim framkvæmdum fult liðsinni.

Þá vil jeg drepa hjer á eina brtt. fjvn., þá, að taka upp styrkinn til búnaðarfjelaganna. Finn jeg sjerstaka ástæðu til að þakka nefndinni það verk. Þessi litli styrkur hefir verið mjög happadrjúgur. Hefir hann orðið mönnum til hvatningar, bæði að stofnun búnaðarfjelaga, sem svo hefir leitt til þess að koma á fót búnaðarsamböndum innan hjeraðanna, og aukið þannig stórum samvinnu í landbúnaðarmálunum. Og þó ekki hafi mikið dregið um þetta fje fyrir hvern einstakan, þá hefir þó óbeina gagnið af þeirri fjárveitingu orðið afarmikið.

Mjer er það því hreinasta ráðgáta, að slíkur búnaðarfrömuður sem hæstv. atvrh. (P. J.) skuli ekki geta kannast við gagnsemi þessa styrks og búnaðarfjelaganna.

Jeg viðurkenni það, að heppilegra væri má ske að haga styrkveitingu innan fjelaga öðruvísi en nú er. Tel jeg heppilegustu leiðina í því efni þá, sem hv. frsm. fjvn. (B. J.) benti á. Ætla jeg, að við 3. umr. muni koma fram brtt. um, hvernig styrknum skuli úthluta.

Háttv. fjvn hefir einnig tekið upp styrk til Þórðar blinda á Mófellsstöðum, og finn jeg einnig ástæðu til að þakka henni það. Þetta er merkur maður. Hann hefir verið blindur frá því hann var barn. Þegar í æsku kom fram hjá honum lagtækni og mjög sterk löngun til smíða. Hefir hann síðan fengist mjög mikið við smíði, og má heita dverghagur, þótt blindur sje, og afkastamaður svo undrum sætir.

Hjer liggur nú fyrir umsögn um smíðisgripi þá, er Þórður sendi hingað á iðnsýninguna 1911, frá Jóni Halldórssyni trjesmíðameistara, er var forstöðumaður iðnsýningarinnar. Munir þeir, er hann sendi á sýninguna, eru þar taldir upp og voru, ef jeg má, með leyfi hæstv. forseta, lesa hjer upp svolítinn kafla úr brjefi, sem forstöðumaður sýningarinnar hefir sent fjvn. Þar segir meðal annars:

„Smíðisgripir, sem hann sendi, voru: Kommóða, koffort, klyfberi, orf og hrífa, sljetthefill, falshefill, strykhefill o. fl.

Þessir munir þóttu mjög vel gerðir af manni, sem ekkert hafði lært, en svo þegar þess er gætt, að smiðurinn er blindur, var dáðst að því af hverjum sem sá“.

Hlutskifti þessa manns, eins og margra annara, hefir orðið fátæktin. Foreldrar hans voru heilsulítil ómegðarhjón. Og hefir hann því orðið að fara margs á mis, og meðal annars þess, að ekki hefir verið hægt að sjá honum fyrir sæmilegu smíðahúsi.

Vona jeg, að háttv. deild lofi honum að fá þessa litlu viðurkenningu, og mun hjeraðsbúum hans vera sönn ánægja að því að leggja þar fram fje það, sem áskilið er, að komi á móti. Þessi styrkur ætti að gera honum kleift að koma sjer upp sæmilegu smíðahúsi, svo hann geti betur neytt sín við sitt hugleikna starf, smíðarnar, sem hann segir, að sjeu sjer sólskinsblettur í myrkrinu.