23.04.1921
Neðri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (1202)

41. mál, fjárlög 1922

Magnús Kristjánsson:

Það er út af V. brtt. á þskj. 359, að jeg tek til máls. — Háttv. fjvn. hefir ekkert álit látið uppi um hana, vegna þess, að ekkert skjallegt hefir legið fyrir henni um þetta. Jeg áleit, að hjer væri um svo lítið að ræða, að ekki væri vert að auka annir hennar með því að fara að senda umsókn. Jeg vona, að allir deildarmenn sannfærist um, að hjer sje um mjög sanngjarna málaleitun að ræða.

Jeg verð að skýra nokkuð frá manni þessum. Þótt hann sje eflaust sumum hv. þm. nokkuð kunnur, þá eru þó líklega einhverjir háttv. deildarmenn, sem ekki þekkja hann.

Maður þessi fór til Vesturheims á unga aldri. Dvaldi hann þar nokkur ár. Kom svo heim, mest til þess að játa ættjörðina verða aðnjótandi þeirrar þekkingar, sem hann hafði aflað sjer í utanförinni, og sjerstaklega hinnar verklegu kunnáttu. Hið fyrsta, sem hann starfaði, eftir að hann kom heim, var það, að hann tók að sjer verkstjórn við skurðgröft í Staðarbygðarmýrum í Eyjafjarðarsýslu. Það er líklega hið fyrsta þess konar fyrirtæki, sem styrks hefir notið af opinberu fje hjer á landi. Síðan varð hann verkstjóri við vegavinnu landssjóðs, og var það í nærfelt 38 ár. Og bið einkennilegasta við það var það, að hann valdist til að vera verkstjóri á hinum verstu fjallvegum þessa lands, og má þar til nefna Sprengisand, Heljardalsheiði og Haugsöræfi. Jeg læt mjer nægja að telja þetta upp, þessu til sönnunar.

Það er auðvitað ekki hægt að segja, að þessi maður hafi verið útilegumaður í orðsins eiginlegu merkingu, þá er það þó víst, að hann hefir átt við allharðan kost að búa. Jeg get getið þess, að hann hefir ekki einungis hugsað um að láta verkamenn sína afkasta sem mestu verki, heldur hefir hann sjálfur unnið meira en meðalmaður, því að óhætt er að segja, að hann sje tveggja manna maki til verks.

Hann hefir alla tíð átt fyrir þungu heimili að sjá, þar sem hann hefir átt 8 börn, sem hann hefir komið öllum vel upp. Auk þess hefir hann orðið að stríða við mikið heilsuleysi konu sinnar.

Mjer er kunnugt um, að ekki ómerkari maður en Páll sál. Briem sagði, að ef nokkur maður væri verður þess að fá ellistyrk, þá væri það hann, og sagðist ætla að stuðla að því, að hann fengi hann. En þessi maður sagðist ekki vilja sækja um styrk, fyr en hann gæti ekki lengur unnið. — Nú er hann 75 ára gamall og getur ekki unnið lengur fyrir sjer og sínum. Og finst mjer því öll sanngirni mæla með því, að hann fái þennan styrk, og jeg vona, að háttv. deild sýni það, að hún kunni að meta svona menn.

Að lokum skal jeg geta þess, að ekkert hefir þessi maður óttast meir en það, ef svo færi, að hann þyrfti að leita á náðir framfærslusveitar sinnar.

Finn jeg svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, en vona, að þessi litla styrkbeiðni fái góðar undirtektir.

Jeg skal svo eigi tefja umræðumar lengi, en þó langar mig til að geta þess, að mjer þótti kynlegt, er jeg fór yfir fjárlagafrv. og sá, að niður hafði verið feldur 14. liður 16. gr. í núgildandi fjárlögum. Það er nefnilega feldur burtu styrkur til manns til þess að leiðbeina í húsagerð til sveita.

Jeg get að vísu verið fáorður um þetta, því að hæstv. atvrh. (P. J.) gerð nokkra grein fyrir, hvernig á þessu stæði.

Jeg álít þetta svo þýðingarmikið, að það mætti ekki niður falla. Því hefir verið borið við, að þessi maður hefði eigi haft nóg að starfa, sökum hins óvenjulega ástands, sem nú hefir verið og er með allar framkvæmdir. Jeg fullyrði, að hann hefir ekki verið iðjulaus, og vel unnið fyrir mat sínum. Laun hans voru fyrst 1000 kr. á ári og því næst 1500 kr., og mjer finst ekki viðeigandi að fella þetta burtu, einmitt nú, þegar nýlega hafa verið bætt launakjör hans og útlit er fyrir að starfið fari óðum vaxandi.

Til þess nú að sýna það, að hann hefir ekki verið með öllu iðjulaus þau ár, sem hann hefir haft þetta starf með höndum, skal jeg telja upp þá staði, sem hann hefir haft eftirlit með byggingu á, og eru þeir:

2014. Hjaltabakki í Húnavatnssýslu, Fremstagil og Holtastaðir.

2015. Grímsstaðir í Mýrasýslu, Sveinsstaðir í Húnavatnssýslu (skólahús), Glerárskógar í Dalasýslu.

2016. Munkaþverá í Eyjafjarðarsýslu, Hof í Svarfaðardal og Stóra-Hraun.

2017. Svarfhóll í Mýrasýslu, og enn fremur hafði hann ferðalög um Norðurland til leiðbeiningar.

2018. Sjúkraskýli á Hvammstanga og ferðalög um Skagafjarðarsýslu.

2019. Gufunes (peningshús).

1920 hafði hann ferðalög erlendis.

1921 á hann væntanlega að sjá um byggingar á Stað í Grunnavík og Melgraseyri.

Jeg get nú ekki annað sagt en að þetta sje æðimikið starf, og svo mikilvægt, að ekki sje rjett að fella það niður, og hefði því þessi fjárveiting átt að standa í fjárlögunum. Það getur nú verið, að stjórnin hafi ætlað sjer að taka þennan styrk upp í aukafjárlögin, en jeg tel það mjög varhugavert að taka upp í aukafjárlög það, sem standa á í fjárlögum, og svo er með þetta. Því að tæplega er hugsanlegt, að maður, sem jafnvel er starfi sínu vaxinn sem þessi maður, geti verið að binda sig við starf, sem óvíst er að hann haldi nema um stundarsakir, og því ekkert eðlilegra en að hann fái sjer annað, sem tryggara er.

Það hefði nú helst verið hægt að rjettlæta þetta, ef sannast hefði, að maður þessi væri ekki starfi sínu vaxinn. En það er nú þvert á móti, því að það er margsannað, að þau hús, sem hann hefir sjeð um byggingu á, eru með þeim bestu, sem hjer er um að gera.

Að jeg fór að minnast á þetta nú. stafar aðallega af því, að jeg sje, að allrífleg upphæð hefir verið áætluð til aðstoðarmanns húsagerðarmeistara. En jeg get nú eigi talið það annað en afturför að fara að stofna hjer í Reykjavík slíka skrifstofustarfsemi, sem mestmegnis á að vinna að stjórnarbyggingum, því að jeg hefði talið það miklu nauðsynlegra að hafa 1 eða 2 menn, er hefðu það starf á hendi að leiðbeina með húsabyggingar í sveitum og undirbúa þær, því að svo bjartsýnn verður maður að vera, að gera sjer von um, að eitthvað breytist til batnaðar, svo hægt verði að halda áfram byggingum til sveita. Jeg fyrir mitt leyti tel hin illu húsakynni, sem víða eru enn til sveita, vera höfuðástæðuna fyrir því, hversu fólkið tollir þar illa og flytst til kaupstaðanna. Það má nú ef til vill segja, að þetta mál komi ekki öðrum við en stjórninni og manninum sjálfum, sem starfinu gegndi. En úr því jeg á annað borð stóð upp, gat jeg eigi annað en minst á það.