23.04.1921
Neðri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

41. mál, fjárlög 1922

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg hafði búist við, að háttv. fjvn. mundi ekki verða öll á móti brtt. minni um lán til sjúkrahússbyggingar á Ísafirði. En mjer skildist þó á orðum háttv. frsm. (B. J.), að svo væri. Nefndin hefir ef til vill álitið, að ekki væri þörf á að veita þessa lánsheimild, þar sem styrkveitingin til þessa sama sjúkrahúss fjell. En jeg hefi ástæðu til að halda fast við þessa brtt., þótt hin fjelli. Jeg hefi talað við oddvita bæjarstjórnarinnar á Ísafirði, og telur hann víst, að bæjarstjórnin muni láta vinna að undirbúningi byggingarinnar næsta vetur, með því að afla innlends byggingarefnis, að svo miklu leyti sem unt verður. En til þess þarf fje, og það fje hyggur bæjarstjórnin, að auðveldara verði að fá, ef þessi lánsheimild er fengin.

Háttv. fjvn. kveðst meðmælt því, að styrkur til sjúkrahússins á Ísafirði verði tekinn upp í næstu fjárlög, þ. e. fyrir árið 1923. Ef nefndinni er alvara um þetta, þá skil jeg ekki, hvernig hún getur staðið á móti lánsheimildinni nú, þegar hún veit þessar ástæður.

Þá vildi jeg benda á styrkinn til búnaðarfjelaganna, sem orðið hefir hjer að talsverðu umræðuefni. Hefir háttv. þdm. nokkuð greint á um það, hvernig bæri að úthluta þessum styrk. Mjer virðist nú, að auðveldasta leiðin í því máli sje sú að hækka styrkinn til Búnaðarfjelags Íslands, svo sem nemur þessari upphæð, til þess að það gæti þá úthlutað því ríflegar til búnaðarsambandanna. Þau munu kunnugust öllum ástæðum og staðháttum, og því best fær um að úthluta rjettlátlega.